Ásgeir Bragi eða Ouse gerir risasamning við Twelve Tones

Ásgeir Bragi eða Ouse. Aðsend mynd.
Ásgeir Bragi eða Ouse. Aðsend mynd.

Ásgeir Bragi Ægisson á Sauðárkróki, hefur heldur betur skotist upp á stjörnuhiminninn með tónlist sína en hann hefur nú gert plötusamning við útgáfufyrirtækið Twelve Tones í Bandaríkjunum. Ásgeir segir samninginn hefðbundinn en niðurstaðan varð sú að semja við þetta fyrirtæki eftir mikla vinnu og samtöl við ýmsa aðra útgefendur. „Okkur leist bara mjög vel á þetta og enduðum á að samþykkja samningin frá þeim,“ segir Ásgeir.

Framundan er því útgáfa nýrrar plötu hjá Ouse, en það er nafnið sem hann notar í músíkinni, og stefnir hann á að hún komi út snemma 2021. „Ég hef verið að vinna í henni í ár eða svo. Þegar við vorum að leita að plötufyrirtækjum sendum við þessa plötu á öll fyrirtækin og þá fór þetta allt í gang. Ég væri að gera miklu meira núna ef Covid væri ekki,“ segir Ásgeir og útskýrir að líklega væri hann í Bandaríkjunum á tónleikum og fundum og öllu er þessum bransa tilheyrir.

Í byrjun sumars greindi Feykir frá því að til stóð að Ouse kæmi fram á tónleikum í Bandaríkjunum en vegna Covid ástands gat ekki orðið af því. „Já, það voru mörg plön hjá mér árið 2020. Spila á tónleikum, hitta artista og fólk frá stórum útgáfufyrirtækjum, en aðallega til að fara í túr með vini mínum, Powfu, sem núna er einn vinsælasti tónlistarmaður í heiminum. Þessi veira hefði ekki getað komið á verri tíma fyrir mig,“ sagði Ásgeir í samtali við Feyki í maí sl. Hann sat þó ekki aðgerðalaus því hann sat fjarfundi á netinu, bjó til meiri músík og telur hann að nú séu yfir 60 lög komin í sarpinn svo það er af nógu að taka.

Ásgeir segir samninginn snúast um það að hann semji lög sem Twelve Tones komi á framfæri, kosti auglýsingar, tónlistarmyndbönd og tónleikaferðir og hljóði upp á nokkra tugi milljóna.
„Þessi samningur er aðallega um ný lög. Þeir tóku nokkur gömul lög að sér en þetta er þannig að þeir hjálpa mér að að ýta tónlistinni áfram, auglýsa hana og koma henni á einhverja playlista, láta mig fá pening til að gera tónlistarmyndbönd og alls konar svoleiðis. Ef að Covid væri ekki væru þeir að fjármagna túra og fleira núna. Ég veit ekki alveg með upphæðina en það er eitthvað yfir 50 milljónir,“ segir tónlistarmaðurinn ungi í lokin.

Vinsælasta lag Ásgeir nú um stundir er Dead Eyes sem komið er í 36 milljón spilanir á Spotify. Hér fyrir neðan má heyra það á YouTube.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir