Vel heppnuð uppskeruhátíð Matsjárinnar
Í fyrstu viku aprílmánaðar var haldin glæsileg uppskeruhátíð og matarmarkaður Matsjárinnar sem fór fram á Hótel Laugarbakka í Húnaþingi vestra. Um var að ræða lokaviðburð 14 vikna masterclass-námskeiðs sem fór af stað í byrjun ársins. Í frétt á vef SSNV segir að á þessu 14 vikna tímabili voru haldnir sjö fræðslufundir og sjö svokallaðir heimafundir sem fram fóru á netinu. Lagt var upp með að veita fræðslu til smáframleiðenda matvæla til að styðja þá í að auka verðmætasköpun, styrkja stöðu sína, efla framleiðslu, auka sölutekjur og sjálfbærni í rekstri.
„Markmið Matsjárinnar var að auka innsýn þátttakenda í rekstur og innviði fyrirtækisins með það fyrir augum að finna leiðir til að auka hagkvæmni, bæta rekstur, auka fagmennsku og innleiða samfélagsábyrgð .
Á síðasta heimafundinum var svo uppskeruhátíð verkefnisins og matarmarkaður þar sem þátttakendur sem allir eru félagsmenn í Samtökum smáframleiðenda matvæla, gátu loksins hist í raunheimum og gestum gafst tækifæri til að kynna sér og kaupa vörur þeirra. Daginn eftir heimsóttu þátttakendur smáframleiðendur á svæðinu, þar með talið Vörusmiðju BioPol á Skagaströnd.
Um 75 framleiðendur af öllu landinu fóru í gegnum Matsjánna í ár og hafði um helmingur tök á að taka þátt í uppskeruhátíðinni og matarmarkaðinum á Hótel Laugarbakka til að uppskera eftir vinnu vetrarins. Áhugi á matarmarkaðinum og smáframleiðendunum var mikill en talið er að um 100 manns hafi sótt markaðinn.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.