Þuríður Harpa hvetur sem flesta til að mæta á opinn fund ÖBÍ og Þroskahjálpar á KK Restaurant í dag

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ. Mynd: PF.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ. Mynd: PF.

Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp býður til opins fundar á KK Restaurant á Sauðárkróki klukkan 17 í dag með frambjóðendum allra flokka í Skagafirði fyrir sveitarstjórnarkosningar 14. maí. Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, mun ræða áherslur og stefnumál fatlaðs fólks, Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar, heldur stutta kynningu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og niðurstöður könnunar Gallup um stöðu fatlaðs fólks í sveitarfélögum verða ræddar. Þá fá frambjóðendur að kynna sig og áherslur sínar í málaflokknum og að endingu verða pallborðsumræður og spurningar leyfðar úr sal.

„Við eru búin að fara út um allt land og heimsækja sveitarfélög, fara yfir áherslur fatlaðs fólks fyrir sveitarstjórnarkosningar, kanna hvað það er sem fatlað fólk hefur að segja og hverjar aðal áherslurnar séu,“ segir Þuríður Harpa.

Hún bendir á að mikil áhersla sé lögð á þjónustu við fatlað fólk, ferðaþjónustan, menntunin, húsnæðismálin séu það helsta sem brennur á þessum hópi.

„Við höfum verið að fara um landið og kynna þessar áherslur, tala um lögboðnar skyldur sveitarfélaganna og samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Einnig höfum við kynnt Gallupkönnun, sem var gerð fyrir okkur með sömu spurningar og fyrir fjórum árum og skoðum breytingarnar. Stærsta breytingin, og kom okkur nokkuð á óvart, var að við spurðum m.a. hvort fólki fyndist málefni fatlaðs fólks ætti frekar heima hjá ríki eða sveitarfélögunum. Það er mjög stór prósenta sem vill að þjónustan við fatlað fólk fari til ríkisins.“

Þuríður segir að það sé gegn vilja Öryrkjabandalagsins. „Það er ekki það sem við viljum. Við viljum að þetta sé í nærsamfélaginu og teljum, líkt og með skóla og aðra þjónustu, að í nærsamfélaginu sé miklu betri þjónusta og ég er alveg viss um að svo sé.“ Hún telur að ástæðan gæti verið sú togstreita sem á sér stað á milli ríkis og sveitarfélaga varðandi fjármagn en nú sé sóknarfæri fyrir sveitarfélög að finna leið til að svara þessu.

Þuríður segir ástand málaflokksins æði misjafnt á landsbyggðinni en flest sveitarfélög telji sig vera að gera góða hluti. „Þegar við hlustum á það fatlaða fólk sem kemur í salinn þá finnur maður að það er greinilega mörgu ábótavant. Sérstaklega hef ég orðið vör við foreldra fatlaðra barna. Þau hafa verið hávær á þessum fundum, ekki endilega út á landi heldur líka á höfuðborgarsvæðinu. Þar finnur maður að það þarf að gera betur til að mæta þeim hópi sem er orðinn þreyttur á þessari eilífu baráttu fyrir eðlilegu og þeirri lögbundnu þjónustu sem hann á rétt á.“ Hún segir það slítandi fyrir fólk að vera stöðugt á þröskuldinum í leit að réttlæti. Einnig segir hún húsnæðismál fatlaðs fólks í brennidepli sem situr fast á biðlistum og útskýrir mikla eftirspurn í félagslegt húsnæði í sveitarfélögunum um allt land.

„Fatlað fólk talar líka um atvinnumál og hve fá tækifæri það hefur til atvinnuþátttöku á hinum almenna atvinnumarkaði. Þannig að það er ýmislegt sem brennur á því eins og hjá öðrum. Þetta er það sem mér hefur fundist háværast og þjónusta. Að fólk fái ekki þá þjónustu sem það biður um ef það kemst ekki á biðlista eftir NPA en þá er engin þjónusta í boði. Það getur verið erfi fyrir fólk.“

Fundurinn í dag er opinn öllum og hvetur Þuríður sem flesta til að mæta. „Þarna gefst frambjóðendum tækifæri til að kynna sínar áherslur í þessum málum og svara þá salnum ef einhver vill spyrja en fyrst og fremst erum við að þessu til að láta vita af okkur og sýna að sveitarfélög séu meðvituð um að þau þurfi að gera vel í þessum málaflokki. Við ættum öll að leggjast á eitt að sjá til þess að fólki líði vel í sveitarfélaginu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir