Þrjú framúrskarandi verkefni á Norðurlandi vestra fengu viðurkenningu SSNV
Fjölmargar tilnefningar bárust til fyrirmyndarverkefna á árinu 2021 á starfssvæði SSNV en á heimasíðu samtakanna kemur fram að í desember hafi verið kallað eftir þeim annars vegar á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar og hins vegar á sviði menningarmála. Stjórn SSNV ákvað á fundi sínum þann 11. janúar sl. að veita þremur framúrskarandi verkefni viðurkenningu.
Verkefni Brúnastaða í Fljótum, Manns og konu ehf. og Sögufélags Skagafjarðar fengu viðurkenningar að þessu sinni.
Á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar fengu Brúnastaðir í Fljótum viðurkenningu fyrir vinnslu geitaosta en þeir þykja einstakir og engum öðrum íslenskum ostum líkir.
Á sviði menningarmála fengu tvö verkefni viðurkenningar en þau eru annars vegar Maður og kona ehf. fyrir Shoplifter í Hrútey, sýninguna Boðflennu, eftir Hrafnhildi Arnarsdóttur, metnaðarfull sýningin sem vakti mikla athygli innanlands sem utan. Segir í greinargerð SSNV að sýningin hafi styrkt sérstöðu landshlutans á sviði sjónlista og haft skýr tengsl við textílmenningu svæðisins.
Hitt verkefnið á sviði atvinnuþróunar var Byggðasaga Skagafjarðar sem Sögufélag Skagafjarðar stóð fyrir en í henni er fjallað um allar bújarðir í Skagafirði í máli og myndum sem hafa verið í ábúð frá árinu 1780 til dagsins í dag. Auk þess innihalda ritin upplýsingar um sveitarfélögin í firðinum og ýmsan annan fróðleik.
Framkvæmdastjóri SSNV mun afhenda viðurkenningarnar fyrir hönd stjórnar en ekki verður haldin úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra í ár vegna samkomutakmarkana. Öll verkefnin hafa hlotið styrki úr Uppbyggingarsjóði Sóknaráætlunar Norðurlands vestra en hægt er að forvitnast nánar um þau HÉR.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.