„Það er oft þrautin þyngri að koma vitinu fyrir fólk“ :: Liðið mitt Hrafn Margeirsson
Hrafn Margeirsson er mörgum kunnur úr handboltanum en hann var ungur kominn suður og kynntist þar íþróttinni sem varð hans eftir það. „Lék í meistaraflokki í 19 ár og á, að mig minnir, 48 landsleiki að baki fyrir Íslands hönd,“ segir hann. Hrafn sleit barnskónum á Mælifellsá, fremsta bæ á Efribyggð í Lýdó hinum forna.
„Ólst þar upp við hefðbundin sveitastörf, gekk í Steinstaðaskóla og stundaði íþróttaæfingar á gamla Framfararvellinum fyrir neðan félagsheimilið Árgarð.“ Hrafn segir Skagafjörð vera heimili sitt á sumrin, en mölina á höfuðborgarsvæðinu á veturna en hann starfar sem sölumaður og atvinnubílstjóri.
Hvert er uppáhalds liðið þitt í enska boltanum og af hverju? -Nottingham Forest er mitt lið og ástæðan er einföld: Þegar ég var að komast til vits og ára var Forest yfirburðalið í enskri og evrópskri knattspyrnu. Þá riðu hetjur um héröð í Skírisskógi, sögusviði Hróa hattar. Leikmenn eins og John Robertson, Viv Anderson, Tony Woodcock, Martin O’Neill, Trevor Francis (fyrsti milljón punda maðurinn) og sjálfur Pétur Shilton, besti markvörður allra tíma í rammanum. Þessir menn, ásamt fleiri góðum, sáu um að kjöldraga hvert það lið sem vogaði sér inn á City Ground. Í brúnni var síðan goðsögnin Brian Clough, ásamt aðstoðarmanni sínum Peter Taylor. Enskir meistarar og tvöfaldir Evrópumeistarar á árunum í kringum 1980.
Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Liðið fer vonandi í umspilsleiki um laust sæti í úrvalsdeildinni á næsta ári og síðan eru meiri líkur en minni á að Liverpool verði slegið út úr Enska bikarnum í átta liða úrslitum áður en mánuðurinn er allur.
Ertu sáttur við stöðu liðsins í dag? -Þetta er ekki alslæmt. Það eru komin rúm 40 ár síðan Forest var á toppnum síðast, eftir hálfa öld mun ég fara að ókyrrast.
Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Jahá, það er viðvarandi ástand. Það er oft þrautin þyngri að koma vitinu fyrir fólk. Það á reyndar við á mun fleiri sviðum.
Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? -Að sjálfsögðu Peter Shilton, hann var engum líkur. Stóð meðal annars í marki Englands í frægasta knattspyrnuleik sögunnar, er Englendingar og Argentínumenn, með Maradonna í broddi fylkingar áttust við í átta liða úrslitum á HM í Mexíkó 1986.
Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Nei, því miður. Hefði samt viljað vera á staðnum í einu af þeim mörgum skiptum er Forest hefur jarðað Leeds.
Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Nei, því miður. Átti viðhafnartreyju helgaða Evrópumeistaratitli 1980. Tapaði henni á fótboltaæfingu á gamla Framfararvellinum í Lýdó 1982 eða 1983. Hef lengi talið að hún hafi endað á Breið, fremsta bæ í Tungusveit, en hef bara ekki komið því í verk að vitja hennar.
Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Algjört skipbrot!!!
Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Jájá. Hef haldið með Stoke City, WBA, Preston North End og Liverpool. En römm er sú taug, ég rataði sem betur fer heim aftur.
Uppáhalds málsháttur? -Skuldari endar ævi á gálga.
Einhver góð saga úr boltanum? -Lék eitt sinn tvo leiki með örfárra daga millibili við Val á Hlíðarenda. Gekk ákveðið og ósjálfrátt beint inn í sama búningsklefann fyrir seinni leikinn. Var kominn inn á mitt gólf þegar ég fattaði að þarna var kvennalið Vals að koma úr sturtu. Algjörlega ógleymanleg sýn og stund!!!!
Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Man ekki eftir neinu í svipinn, er friðelskandi maður.
Spurning frá Hólmgeiri Einarssyni: -Hvort heldur þú að Nott. Forest verði í B eða C deild á næsta tímabili?
Svar: -Verðum líklega í B deildinni og þá verður ánægjulegt að jarða Leeds rétt eina ferðina.
Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Skora á margfaldan íþróttamann Skagafjarðar, alræmdan heimaslátrara og ,,besta tengdason Kaupfélagsins” Svein Margeirsson.
Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Forest hefði nú seint farið niður með þáverandi landsliðsmarkvörð innanborðs.
Áður birst í 12. tbl. Feykis 2022
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.