Svör til íbúa
VG og óháðum bárust þessar spurningar frá íbúa sveitarfélagsins og erum sannarlega glöð að svara fyrirspurnum frá áhugasömum!
- Hver eru áherslumálin? Ef þið fengjuð hreinan meirihluta og þið réðuð þessu sjálf, nefnið 3-5 verkefni á svæðinu sem þið mynduð gera á næstu 4 árum.
Við hjá VG og óháðum viljum opna stjórnsýslu, gagnsæi, heiðarleika og vönduð vinnubrögð. Það væri m.a. gert með skýrari verkferlum í stjórnsýslunni, greinargóðum fundargerðum, með auknu samráði við íbúa og íbúakosningum. Eins væri nauðsynlegt að hafa mælaborð á heimasíðu sveitarfélagsins með sýnileika á bæði framkvæmdum sveitarfélagsins og úrvinnslu íbúafunda. Ekki síst viljum við auka vægi ungmennaráðs og öldungaráðs í nefndum sveitarfélagsins.
Vegna stöðu húsnæðismála í sveitarfélaginu viljum við auka framboð íbúða húsnæðissamvinnufélaga án hagnaðarsjónarmiða í öllum þéttbýliskjörnum og eins tryggja að lóðir standi til boða í öllum þéttbýliskjörnum.
VG og óháð vilja að lögbundinni þjónustu sé sinnt vel um allt hérað og að við göngum lengra í valkvæðri þjónustu sem skapar jöfnuð og raunverulega heilsueflandi og fjölskylduvænt samfélag. Það þarf að stórbæta þjónustu við eldra fólk með staðbundinni matarþjónustu og stuðningi óháð búsetu. Auka þarf endurhæfingu í heimahús og almennt framboð af hreyfingu fyrir aldraða og sjá til þess að allir geti elst í sinni heimabyggð. Á sama tíma þarf að fjölga þjónustuíbúðum fyrir aldraða og hraða byggingu hjúkrunarheimilis, en Skagafjörður er með lengstan biðlista á landinu eftir slíkum rýmum.
Við leggjum áherslu á að tryggja fjölbreytileika í félags-, tómstunda-, íþrótta- og tónlistarstarfi svo allir geti fundið eitthvað við allra hæfi. Öll börn eiga að njóta fjárstuðnings við tómstunda og íþróttaiðkun, frá 0 - 18 ára en ekki einungis frá 5 - 18 ára eins og nú er. Einnig þarf að halda áfram að hækka hvatapeninga í takt við verðlagsþróun.
Mikilvægt er að vinna að stefnumótun í íþróttamálum í samstarfi við UMSS og aðra hlutaðeigandi aðila, kortleggja vel hver þörfin er og forgangsraða verkefnum með fólkinu sem að íþróttunum koma.
Við stefnum einnig á að reiðhöllin Svaðastaðir verði skilgreind sem íþróttamannvirki og viðhaldið sem slíku.
VG og óháð ætla sér að afnema leikskólagjöld í áföngum og tryggja að öll börn komist inn á leikskóla við 12 mánaða aldur í sínu nærumhverfi. Til þess að sjá fyrir þörfina þarf að áætla fjölda leikskólaplássa miðað við fjölda úthlutaðra lóða á hverjum stað fyrir sig. Einnig þarf að auka sveigjanleika, svigrúm og stöðugildi starfsmanna leikskólanna þar sem álag er gríðarlega mikið á þessum mikilvægu vinnustöðum.
Áfram viljum við þróa öflugt og framsækið skólastarf í öllum skólum Skagafjarðar t.d. með að matur sé eldaður á staðnum í öllum skólum og skólastigum í firðinum eftir gildum heilsueflandi grunnskóla. Við viljum bæði gróðurhús og skólahreystibrautir við grunnskólana sem og nauðsynlegt viðhald á skólabyggingum, sérstaklega A-álmu Árskóla. Við viljum endurbyggja Varmahlíðarskóla með fjölbreyttum vinnurýmum fyrir nemendur en ekki einungis hefðbundum kennslustofum með borðum og stólum. Þar er sannarlega tækifærið núna til að gera vel og horfa til framtíðar. Mikilvægt er að hraða framkvæmdum við fjölnota iðnnámshús í FNV sem og að tryggja viðunandi vinnuaðstöðu fyrir nemendur og kennara Tónlistarskóla Skagafjarðar. Ungmennahús fyrir tómstundastarf 16+ ára er mjög þarft fyrir unga fólkið okkar og þarf að koma slíkri aðstöðu fyrir í húsnæði í eigu sveitarfélagsins.
Um leið og stuðla þarf að uppbyggingu menningarhúss á Sauðárkróki má ekki gleyma að hlúa að menningararfi Bifrastar og bæta þar aðstöðu. Við viljum í því samhengi styðja við stofnun menningarfélags Skagafjarðar og sýna stuðning við samfélagslega viðburði til að auðga menningarlíf og skemmtun Skagfirðinga.
- Það er ekki hægt að gera allt og ef það á að gera eitthvað á líklega að gera minna af einhverju öðru. Hvaða verkefni mynduð þið leggja minni áherslu á en hefur verið gert síðustu 4-8 ár?
Við hjá VG og óháðum viljum engar áhættufjárfestingar heldur sinna lögboðnum og valkvæðum verkefnum sveitarfélagins vel fyrir alla íbúa. Við viljum því ekki greiða stöðugildi starfsmanna sem þjóna til borðs á veitingastað í samkeppni við aðra veitingastaði héraðsins eins og staðreyndin er nú með starfsmenn upplýsingamiðstöðvar sem staðsettir eru hjá 1238 á Aðalgötu 21. Þess vegna viljum við kanna hvort að lögfræðilegar forsendur samnings sveitarfélagsins við Sýndarveruleika ehf standist og rifta samningi til 30 ára ef svo er ekki.
Við viljum ekki línulegar hækkanir um hver áramót á leikskólagjöld, á fæði í leik- og grunnskólum eða hækkun á leigu félagslegra íbúða.
Við viljum ekki virkjanaáform í Jökulsánum heldur vernda sérstöðu þeirra. Við styðjum því áform í Rammaáætlun 3 að setja Jökulárnar í vernd og tökum ekki undir áform meirihluta um að halda Jökulsánum í biðflokki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.