Sókn til framtíðar
Þann 14. maí næstkomandi verða sveitarstjórnarkosningar haldnar um land allt. Þá ákveðum við hverja við veljum til þess að stjórna nærsamfélögum okkar næstu fjögur árin. Í ljósi eftirfarandi lagatexta er gott og rétt að við íhugum vandlega hverja við viljum sjá við stjórnvölin.
Í Sveitarstjórnarlögum segir meðal annars: “Sveitarstjórn hefur ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna, lántökur og ráðstöfun eigna og um framkvæmd verkefna sveitarfélagsins. Sveitarstjórn skal sjá um að lögbundnar skyldur séu ræktar og hafa eftirlit með því að fylgt sé viðeigandi reglum í störfum sveitarfélags.
Sókn til framtíðar
Sveitarfélagið Skagafjörður er margkjarna sveitarfélag, þ.e. í því eru fleiri en einn þéttbýliskjarni. Þar sem sveitarfélagið er svo víðfemt sem raun ber vitni og er nú orðin enn stærra eftir sameiningu þess við Akrahrepp er mikilvægt að passa vel upp á að sinna lögbundinni grunnþjónustu um allt héraðið.
Telja má víst að byggðaþróun í Skagafirði verði með líkum hætti og í öðrum sambærilegum sveitarfélögum. Ekki þarf að leita lengi til að sjá hvernig sprenging hefur orðið í uppbyggingu þéttbýliskjarna sem hefur svo smitast út í sveitirnar þar í kring. Til að mynda hafa nágrannar okkar í Eyjafjarðarsveit farið úr því að vera “venjulegt” dreifbýli yfir í þéttbýla sveitabyggð með þéttingu byggðar um alla sveitina. Þetta gerist samhliða uppbyggingu í þéttbýli sveitarfélagsins þar sem stjórnsýslan er og talsverður hluti íbúanna býr. Þessi þróun er nú þegar byrjuð í Skagfirði með byggingu nýrra íbúðarhúsa vítt og breytt í dreifbýlinu ásamt mikilli uppbyggingu á Sauðárkróki og fjölgun lóða og bygginga á minni þéttbýlisstöðum fjarðarins.
Skagafjörður hefur allt sem til þarf svo ungt fólk setjist hér að og stækki og bæti samfélagið okkar. Uppbygging hitaveitu í dreifbýlinu, lagning ljósleiðara ásamt lagfæringum í dreifikerfum rafveitu í héraðinu hjálpar unga fólkinu að taka ákvörðun um búsetu á svæðinu. Uppbygging og fegrun allra þéttbýliskjarna í firðinum er lykillinn að framtíðinni ásamt því að hafa ævinlega nægar byggingalóðir til taks í þeim öllum. Um leið þarf að horfa lengra inn í framtíðina og passa upp á að ekki verði skortur á leikskólaplássum og að aðrir skólar héraðsins verði ævinlega með pláss fyrir stækkandi íbúafjölda. Í þessu sambandi dugir ekki að horfa til næsta kjörtímabils, heldur þarf að horfa lengra inn í framtíðina. Ótækt er að nýbyggður leikskóli verði strax yfirfullur af börnum og að biðlistar myndist fljótlega í kjölfarið.
Samfara íbúafjölgun og uppbyggingu um allt héraðið er nauðsynlegt að auknir verði atvinnumöguleikar sem víðast. Ýta þarf undir atvinnuuppbyggingu í þéttbýli sem og í dreifbýli, en atvinna sem næst íbúum skilar sér í styttri ferðatíma til vinnu sem aftur minnkar kostnað og mengun og bætir þar með lífsgæði íbúanna.
Til að ýta undir stofnun nýrra fyrirtækja, sprotafyrirtækja sem og annarra þarf að búa til reglur um tímabundnar ívilnanir af hálfu sveitarfélagsins þegar þau skapa ný störf sem skila samfélaginu arði á komandi árum.
Græna stóriðjan í Skagafirði
Skagafjörður er mikið landbúnaðarhérað og afleidd störf eru mörg. Því þarf að hvetja fyrirtæki og stofnanir til þess að velja ætíð fyrst matvæli sem eiga uppruna sinn innan fjarðar eða í nágrenni. Þannig styðjum við matvælaframleiðslu og önnur störf í heimabyggð til hagsbóta fyrir sveitarfélagið og landið allt. Á sama tíma þarf að krefjast þess af yfirvöldum að hætt verði að flytja miklu meira af matvælum til landsins en þörf er fyrir ásamt því að þau fylgist mun betur með innflutningi og sjái til þess að tollareglum sé framfylgt, en brotalamir hafa verið miklar í tollaeftirliti með slæmum afleiðingum fyrir íslenska framleiðslu og þar með skagfirska á sama tíma.
Á viðsjárverðum tímum náttúruhamfara, fjármálahruna, veirufaraldra og nú síðast stórstyrjaldar er nauðsynlegt að hlúa að einu “Grænu” stóriðju Íslands, sumsé framleiðslu matvæla frá grunni… frá haga í maga. Með því að vera að sem mestu leyti sjálfum okkur næg um matvæli og kannski aflögufær fyrir aðrar þjóðir á sama tíma treystum við atvinnu um allt land og treystum byggð. Þetta á sérstaklega við hér í Skagafirði þar sem mikill landbúnaður er stundaður.
Önnur stóriðja sem stenst kröfur okkar um vernd umhverfisins væri velkomin og gæti fjölgað atvinnumöguleikum og byggt undir hagkerfi héraðsins. Þar væri til dæmis ný áburðarverksmiðja ákjósanlegur kostur. Áburður framleiddur með okkar umhverfisvænu orkugjöfum myndi gera allan okkar landbúnað og landgræðslu umhverfisvænni en hann þó nú þegar er.
Byggðalistinn fyrir fólkið og fyrirtækin
Hér hefur aðeins verið tæpt á litlum hluta þess sem sem undirritaður telur að gott sé fyrir kjósendur að hafa til hliðsjónar þegar þeir skunda á kjörstað og ákveða hverjir verða þeirra fulltrúar í næstu sveitarsjórn í sveitarfélaginu. Þau eru auðvitað mörg önnur, en Byggðalistinn mun gera sitt besta til að vinna þessum sem og öðrum góðum málum framgang af heilindum. Í Byggðalistanum er fjölbreyttur hópur fólks sem býr vítt og breytt um héraðið, fólk sem vill hafa áhrif til góðs og fólk sem hefur sýnt að það á auðvelt með að vinna með öðrum að framfaramálum fyrir íbúa Skagafjarðar.
Högni Elfar Gylfason
Höfundur skipar 4.sæti Byggðalistans fyrir sveitarstjórnarkosningar 14.maí 2022
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.