Skagfirðingabók komin út

Á kápu Skagfirðingabókar má líta merki Skagafjarðar, gert í tilefni Alþingishátíðarinnar 1930.
Á kápu Skagfirðingabókar má líta merki Skagafjarðar, gert í tilefni Alþingishátíðarinnar 1930.

Út er komin Skagfirðingabók númer 41, rit Sögufélags Skagfirðinga, en sú fyrsta kom fyrir almenningssjónir árið 1966. Átta greinar eru í bókinni að þessu sinni og höfuðgreinin um Ingibjörgu Jóhannsdóttur á Löngumýri, eftir Gunnar Rögnvaldsson.

Auk höfuðgreinarinnar eru tvær langar greinar sem tengjast Hólum í Hjaltadal, annars vegar um kirkjuturninn, aðdraganda að byggingu hans og vígslu, eftir Sigtrygg Björnsson, og svo grein Sigurjóns Páls Ísakssonar þar sem raktar eru heimildir um múrinn á Hólum, sem kenndur er við Auðun rauða, og var upphaflega grunnur að steinkirkju sem líklegt er að byrjað var á 1315 en kláraðist aldrei.

Sagt er frá fjársölu til Siglufjarðar á síldarárunum en höfundur þess þáttar er Pétur Jónsson frá Brúnastöðum, Magnús H. Helgason skrifar um Danslagakeppni Kvenfélags Sauðárkróks áranna 1956 – 1971 og Sigríður Sigurðardóttir segir frá sýslumerki Skagfirðinga sem Tryggvi Magnússon vann út frá fána sem gerður var fyrir Alþingishátíðina 1930 og prýðir kápu bókarinnar. Þá er þáttur Halldórs Ármanns Sigurðssonar, sem var í sveit á Bergsstöðum hjá Ragnari og Sigurlínu og segir Hjalti Pálsson, einn þriggja ritstjóra, Línu hafa verið allsérstaka manneskju og segir Halldór frá dvöl sinni þar og kemst vel frá.

Mikið mál og illindi

„Hannes Pétursson er með nokkuð magnaða grein. Þetta er um mál sem lengi var feimnismál í Ásættinni í Hegranesi. Mágur Ólafs í Ási var Sigfús Pétursson, sem bjó á Hellulandi og seinna í Eyhildarholti, en þeir urðu óvildarmenn. Sigfús var giftur systur Ólafs en hún deyr, var búin að vera veik. Ólafi er ekki boðið til kistulagningar, sem fram fer heima en svo er líkið borið til kirkju í Ríp og þar verður heldur betur uppistand. Ólafur kemur vaðandi inn þar og kona hans þar á eftir, fylgdi náttúrulega manni sínum, og hann veður að kistunni og brýtur hana upp til þess að fullvissa sig um það að konan hafi dáið eðlilega en hafi ekki verið drepin eða eitthvað álíka, slíkar voru dylgjur. Þetta varð mikið mál og illindi á milli þeirra mága alla tíð síðan,“ segir Hjalti og bendir á sérstöðu þess að Hannes hafi haft heimildir frá manni sem var viðstaddur þennan atburð 1879. Sá hafi sagt Þóri Bergssyni rithöfundi, (Þorsteini Jónssyni), sem var prestssonur á Ríp sem skráði og gaf Hannesi sem notar núna og birtir. Hjalti segir að um krassandi þátt.

Sögufélagið hefur fasta útgáfu Skagfirðingabókar og er í raun skyldukaup félagsmanna, sem félagsgjald, en þeir eru um 760 talsins. Hjalti segir að þrátt fyrir töluverðar kostnaðarhækkanir, bæði í prentun og póstburðagjöldum sérstaklega, er bókin seld á sama verði og hún hefur verið í mörg ár 5600. Innifalið í því sé dreifingargjald þannig að reynt er að halda kostnaði í lágmarki.

Þar sem bréfasendingar eru orðnar ærið kostnaðarsamar biður Sögufélagið félagsmenn að senda netföng sín á saga@skagafjordur.is en þangað geta áhugasamir einnig sótt um að gerast félagar eða nálgast bókina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir