Skagafjörður til framtíðar
Í Skagafirði er gott að búa, fjölbreytt atvinnulíf og aðstæður góðar fyrir fjölskyldufólk. Hér viljum við ala upp börnin okkar og er því mikilvægt að grunninnviðir sveitarfélagsins séu í lagi. Í upphafi kjörtímabilsins sem nú er að líða var bæði vöntun á íbúðarhúsnæði og leikskólaplássi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur því lagt mikla áherslu á að fjölga lóðum í þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins og stuðla að uppbyggingu á leikskólum um fjörðinn.
Betur má ef duga skal
Þrátt fyrir uppbyggingu þessara grunninnviða á sviði húsnæðis- og leikskólamála stöndum við frammi fyrir nýjum áskorunum. Þar má allra helst nefna vöntun á starfsfólki leikskóla en nýverið var tilkynnt um opnun nýrrar deildar við leikskólann Ársali. Það mun hins vegar ekki nást að fullmanna deildina þannig að hægt sé að veita öllum börnum, 12 mánaða og eldri, pláss á leikskólanum. Það liggur því fyrir að hugsa þarf málin upp á nýtt og hvernig hægt sé að stuðla að því að gera leikskóla að eftirsóknarverðum vinnustað. Til að mynda mætti leysa úr þessum vanda með því að umbuna starfsfólki sem ávallt stendur vaktina, sem og að skilgreina hvata s.s. með niðurgreiðslu á gjöldum til barna starfsfólks, hvort sem í leik- eða grunnskóla. Það er mikilvægt að leikskólaumhverfið sé aðlaðandi vinnustaður og að stuðningur sé við starfsfólk þess.
Hvað húsnæðismálin varðar hefur talsverð fjölgun lóða átt sér stað á kjörtímabilinu. Hins vegar hefur fasteignaverð og byggingarkostnaður rokið upp úr öllu valdi og gengur t.a.m. erfiðlega fyrir ungt fólk að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Það er því mikilvægt að stuðla að uppbyggingu hagkvæms húsnæðis sem hentar mismunandi þörfum fólks, svo sem með uppbyggingu á íbúðum með hlutdeildarlánum fyrir fyrstu kaupendur og innan almenna leiguíbúðarkerfisins. Með því að bjóða upp á fjölbreyttar lóðir og húsnæði, hvort sem er til að leigja eða kaupa, styðjum við íbúa sem og aðra sem hingað vilja flytja við að komast inn á húsnæðismarkaðinn í Skagafirði.
Þessu viljum við í Sjálfstæðisflokknum vinna að!
Sólborg Borgarsdóttir skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Skagafirði og
Regína Valdimarsdóttir skiptar 4. sæti listans
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.