SKAGAFJÖRÐUR LÍFSINS GÆÐI OG GLEÐI
Sveitarfélagið Skagafjörður vann og samþykkti árið 2014 FJÖLSKYLDUSTEFNU SKAGAFJARÐAR sem er sex síðna plagg með afar göfugum fyrirheitum og áætlunum að glæsilegri stefnu. Árið 2019 skrifuðu fulltrúar sveitarfélagsins Skagafjarðar undir það að vera HEILSUEFLANDI SAMFÉLAG og árið 2020 var ákveðið að sveitarfélagið Skagafjörður yrði BARNVÆNT SVEITARFÉLAG.
Ef þessar stefnur eiga að vera starfhæfar í sveitarfélaginu og ekki einungis fallegt skraut á heimasíðunni og fögur fyrirheit, þá þarf að forgangsraða fjármunum eftir þessum stefnum og á annan hátt en verið hefur gert.
Ef við skoðum aðeins aðalmarkmið þessara stefna og dæmi hver fyrir sig hvernig hefur gengið að framfylgja þeim.
FJÖLSKYLDUSTEFNA SKAGAFJARÐAR
- Sveitarfélagið kappkostar að vera í fremstu röð í verndun umhverfis, náttúru og menningu þannig að Skagafjörður sé eftirsóttur til búsetu sem vistvænt sveitarfélag með aðlaðandi umhverfi.
- Stjórnsýsla Sveitarfélagsins Skagafjarðar miðar að því að mæta þörfum og aðstæðum íbúa með markvissum hætti. Hagsmunir þeirra eru hafðir að leiðarljósi við ákvarðanatöku. Ávallt skal gæta jafnræðis og jafnréttis gagnvart íbúum og finna ákvarðanatöku lýðræðislegan farveg. Lögð er áhersla á gagnsæi og góða stjórnsýsluhætti, skjóta afgreiðslu mála og gott aðgengi að upplýsingum.
- Sveitarfélagið Skagafjörður er fjölskylduvænt samfélag og leggur áherslu á að bjóða ungu fólki að taka þátt í mótun þess. Ungmennaráð skal vera starfandi í Sveitarfélaginu Skagafirði og vera sveitarstjórn til ráðgjafar í ákvarðanatöku og stefnumótun í málefnum sem snerta ungt fólk.
- Skapa umgjörð fyrir fjölbreytta menningarstarfsemi sem virkar hvetjandi til þátttöku í list- og menningarstarfsemi.
- Sveitarfélagið Skagafjörður leggur áherslu á að skapa fjölskylduvænt umhverfi sem tekur mið af þörfum allra íbúa. Sérstaklega skal litið til þarfa barna og ungmenna, fatlaðs fólks og eldri borgara. Gott jafnvægi á milli þarfa fjölskyldunnar og atvinnulífsins er grundvöllur að góðu heildarskipulagi byggðar. Sveitarfélagið stefnir að því að verða fyrirmyndarsamfélag á sviði umhverfismála.
- Sveitarfélagið Skagafjörður vill að samgöngukerfi sveitarfélagsins stuðli að greiðum samgöngum íbúa til og frá þeirri þjónustu sem í boði er fyrir íbúa svæðisins.
HEILSUEFLANDI SAMFÉLAG
Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa.
Leiðarljós Heilsueflandi samfélags:
- Virk þátttaka samfélagsins í heild, þ.m.t. hagsmunaaðila úr öllum geirum.
- Jöfnuður til heilsu með almennum aðgerðum og aðgerðum sem taka mið af þörfum viðkvæmra hópa. Sjálfbærni, leggja áherslu á að skipuleggja starf og árangur til lengri tíma litið.
Í Heilsueflandi samfélagi er heilsa og líðan allra íbúa í fyrirrúmi í allri stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum og allir geirar hafa hlutverk. Unnið er með áhrifaþætti heilbrigðis og vellíðanar s.s. félags-, efnahags- og menningarlegar aðstæður, manngert og náttúrulegt umhverfi til að skapa sem ákjósanlegastar aðstæður í lífi, leik og starfi fyrir fólk á öllum æviskeiðum. Holla valið þarf að vera eins auðvelt og kostur er s.s. að hreyfa sig, borða hollt, rækta geðið og ástunda grænan lífsstíl á sama tíma og spornað er gegn áhættuhegðun s.s. neyslu tóbaks, áfengis og annarra vímuefna. Stuðningur við starf Heilsueflandi leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er mikilvægur liður í starfi Heilsueflandi samfélags.
BARNVÆNT SVEITARFÉLAG
Að sveitarfélag innleiði Barnasáttmálann þýðir að það samþykki að nota sáttmálann sem viðmið í sínu starfi og að forsendur sáttmálans gangi sem rauður þráður gegnum starfsemi þess.
Líkja má innleiðingunni við að starfsmenn og stjórnmálamenn sveitarfélagsins setji upp „barnaréttindagleraugu“ og rýni og skoði verk- og ákvarðanaferla með hliðsjón af sáttmálanum. Sáttmálinn er þannig nýttur sem gæðastjórnunarverkfæri í stefnumótun og þjónustu með tilliti til barna.
GÖNGUM ALLA LEIÐ OG FRAMFYLGJUM STEFNUM SVEITARFÉLAGSINS
Ef viðmið þessara þriggja stefna yrðu starfrækt þá myndi heilsa og líðan ALLRA íbúa vera í fyrirrúmi, þá myndum við eignast fjölskylduvænt umhverfi sem tekur mið af þörfum ALLRA íbúa og þá myndu hagsmunir íbúa verða í fyrirrúmi. En það er ekki nóg að hafa stefnur, þeim þarf að fylgja markmið og aðgerðaráætlanir og þeim þarf að framfylgja ef árangur á að nást.
Ef við byrjum á byrjuninni, lýðræði, gagnsæi og ákvörðunartaka. Íbúalýðræði á ekki að vera skrautorð sveitarfélaga heldur þarf að leggja metnað í að virkja það alla leið og setja fjármagn í heimasíðu sveitarfélagsins þar sem auðvelt er að kjósa um forgangsröðun, um verkefni og raunverulega gefa íbúum ákvörðunarvald í mikilvægum málefnum. VG og óháð lögðu fram tillögu þar að lútandi á byggðaráðsfundi sem vonandi er fyrsta skref í átt að raunverulegu íbúalýðræði.
„Eftir hvern íbúafund er gerð heildræn samantekt umræðna og hugmynda sem sett er á heimasíðu sveitarfélagsins, og því auðveldlega aðgengileg öllum íbúum.
Framkvæmdaráætlun er unnin af sveitastjórn og starfsmönnum sveitarfélagsins útfrá niðurstöðum íbúafunda og sett á heimasíðu.
Upplýsingar um framgöngu verkefna, mála og hugmynda íbúafunda eru sett á heimasíðu sveitarfélagsins, svo auðveldlega sé hægt að fylgjast með þróun og framkvæmd.“
Það þarf einnig að ganga lengra í virku ungmenna- og öldungalýðræði. Ungmennaráð og Öldungaráð Skagafjarðar ættu að eiga tengilið inn í allar nefndir Skagafjarðar og koma því þeirra sjónarmiðum að við hvert málefni sem tekið er fyrir, en ekki einungis hafa tækifæri til að láta raddir sínar heyrast einu sinni á ári.
Hér eru síðan nokkur atriði tilgreind sem þarfnast aðgerða til jöfnuðar að mati greinahöfundar og er listinn alls ekki tæmandi:
-Þjónusta í dreifbýli t.d. starfsmenn áhaldahúss staðsettir í öllum þéttbýliskjörnum.
-Þjónusta eldri borgara í öllum Skagafirði eins og t.d. matarsendingar.
-Græn fjölskylduvæn útivistarsvæði. Hvað þarf eiginlega til þess að við eignumst einn róló?
-Hvatarpeningar fyrir 0-18 ára en ekki 5-18 ára og hækkun þeirra í samræmi við verðlagsþróun.
-Gjaldfrjáls leikskóli.
-Aukin sérfræðiþjónusta í leik-og grunnskólum Skagafjarðar ásamt því að gera fjarviðtöl við sérfræðinga í félagsþjónustu aðgengilegri íbúum.
-Ástand og aðstaða tónlistarskólans í Skagafirði er efni í sér grein sem yrði löng. Ef vinnuaðstaða nemenda og kennara verður ekki bætt strax, þá verða ekki neinir tónlistarkennarar eftir á svæðinu og engin tónlistarkennsla fyrir börnin okkar.
-Frístundahús fyrir 16-25 ára, það vantar sárlega aðstöðu fyrir ungmennin okkar.
-Markviss stefna í íþróttamálum.
-Viðhald núverandi eigna.
-Stofnun MESK- Menningarfélags Skagafjarðar.
Sinnum vel þeirri lögbundnu þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að sinna og göngum lengra í valkvæðri þjónustu sem skapar jöfnuð og raunverulega heilsueflandi, barnvænt og fjölskylduvænt samfélag. Ef á að skapast farvegur til velsældar og lífsins gæði og gleði fyrir alla íbúa Skagafjarðar þá þarf að vinna markvisst með þær stefnur sem nú þegar hafa verið samþykktar og framfylgja þeim alla leið.
Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir
Skipar 2. sæti á lista VG og Óháðra í Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.