Rétt hjá hverju eru Hólar?
Pálína Hildur Sigurðardóttir heiti ég og skipa 8. sæti ByggðaLista fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Ég er leikskólakennari að mennt og er deildarstjóri í leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki. Ég er borin og barnfæddur Keflvíkingur en það var í lok árs 2016 sem maðurinn minn sá auglýst starf hjá Háskólanum á Hólum. Við hjónin vorum á þessum tíma að upplifa nýtt frelsi þar sem yngsta dóttir okkar var nýflutt að heiman og við vorum tilbúin að prófa eitthvað nýtt.
Hann leit upp úr blaðinu og spurði „hvernig líst þér á að flytja í Hóla?“ Ég hugsaði málið og spurði svo „rétt hjá hverju eru Hólar?“ Hann svaraði: ,,Sauðárkróki“. Ég sagðist vera tilbúin að skoða það. Í febrúar 2017 fluttum við í Sveitarfélagið Skagafjörð, nánar tiltekið; heim að Hólum. Í kjölfarið fór ég að kynna mér staðinn og varð hissa hversu fáir þekkja til og vita af þessum sögufræga stað, þar á meðal ég sjálf. Byggðin er falleg og stílhrein. Kirkjan stillir sér fremst, turninn upphefur hana og svo er skólahúsið að baki.
Að baki þorpinu rís Hólabyrða í öllu sínu veldi. Þess má geta að Hólabyrða er hæsta fjall við byggð á Íslandi! En Hólabyrða er ekki eina fjallið. Dalurinn er umkringdur stórbrotnum fjöllum sem halda utan um Hólastað – byggð í fjallasal ef svo má að orði komast. Áhrif Hólastaðar á menntun og mannlíf í Skagafirði eru gríðarleg. Jón Ögmundsson sem var fyrsti biskup á Hólum, lagði drög að stofnun klaustra, stofnaði skóla og réð jafnvel til sín franskan tónlistarkennara. Ást Skagfirðinga á tónlist er á góðum stundum rakin allt aftur til þess.
Jón Arason flutti til landsins fyrstu prentsmiðjuna og um langt skeið var rekin öflug prentsmiðja að Hólum en einkum sinnti hún prentun guðsorðabóka. Þekktastur lúthersku biskupanna á Hólum var eflaust Guðbrandur Þorláksson en við hann er kennd Guðbrandsbiblía, sú fyrsta sem gefin var út á íslensku. Í hans tíð voru prentaðar nærri 100 bækur á Hólum.
Árið 1798 var biskupstóll lagður niður að Hólum en árið 1881 keypti Skagafjarðarsýsla staðinn og lét stofna þar búnaðarskóla. Í dag er Hólaskóli öflugur og nútímalegur háskóli sem leggur áherslu á hrossarækt, fiskeldi og ferðamál. Árið 1998 var Hóla- og Viðvíkurhreppur einn af 11 hreppum í Skagafirði til að sameinast og til varð Sveitarfélagið Skagafjörður.
Sá samfélagslegi ávinningur fyrir landshlutann og þá ekki síst fyrir héraðið okkar sem hlýst af Háskólanum á Hólum kemur fram með ýmsum hætti. Skólinn skapar verðmæt störf og margir hafa með óbeinum hætti hag af starfseminni, ekki síst vegna margfeldisáhrifa í samfélaginu. Nefna má aukið útsvar til sveitarfélagsins, störf iðnaðarmanna og auknar tekjur tengdar þjónustustörfum sem síðan leiða af sér fleiri störf. Þá er ótalinn sá nýsköpunarkraftur sem þau héruð njóta sem hafa öfluga háskóla. Starfsemi háskóla í sveitarfélaginu er ómetanlegt fyrir nærumhverfið.
Samfélagið á Hólum samanstendur af nemendum skólans, starfsfólki hans og almennum íbúum og þar er einnig rekinn bæði leik- og grunnskóli. Á sumrin ber mest á bæði innlendum og erlendum ferðamönnum í bland við heimafólk en segja má að samfélagið á Hólum taki svo stakkaskiptum í lok sumars. Þá tvöfaldast íbúafjöldi staðarins með komu nemenda á sama tíma og dregur úr fjölda ferðamanna. Það er hagur allra íbúa héraðsins að Hólastaður fái að vaxa og dafna innan Sveitarfélagsins Skagafjarðar en þar eru mörg ónýtt sóknarfæri.
Það er mikilvægt að sveitarfélagið byggi upp skýra framtíðarsýn til að hægt sé að styrkja grunnstoðir samfélagsins í stækkandi sveitarfélagi. Á þann hátt erum við betur undir það búin að taka á móti fólki sem vill setjast að í héraðinu okkar, hvort sem um er að ræða í þéttbýli eða dreifbýli.
Við breytum ekki heiminum nema með því að leggja öll eitthvað á vogarskálarnar og það sama á við um þær breytingar sem við viljum ná fram í samfélaginu.
Pálína Hildur Sigurðardóttir skipar 8. sæti ByggðaLista fyrir sveitarstjórnarkosningar 14.maí næstkomandi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.