Rekstri Verzlunar Haraldar Júlíussonar hætt

Frændsystkinin Haraldur, Helga, Guðrún og Einar á seinasta opnunardegi Verzlunar Haraldar Júlíussonar. Mynd af FB-síðu Einars K.
Frændsystkinin Haraldur, Helga, Guðrún og Einar á seinasta opnunardegi Verzlunar Haraldar Júlíussonar. Mynd af FB-síðu Einars K.

„Nú er lokið samfelldri 103 ára sögu Verslunar Haraldar Júlíussonar á Sauðárkróki sem afi minn og amma, Haraldur Júlíusson og Guðrún Bjarnadóttir og móðurbróðir minn Bjarni Haraldsson áttu og ráku,“ skrifar Einar K. Guðfinnsson, fv. alþingismaður, ráðherra og forseti Alþingis, á Facebooksíðu sína en hann var systursonur Bjarna og mjög stoltur af tengingunni norður á Krók.

Þau frændsystkin, dætur Bjarna Guðrún og Helga, og bræðurnir Einar og Haraldur vörðu deginum saman í búðinni og seldu vörur á miklum afslætti þar sem versluninni var skellt í lás að afloknum degi. „Þetta var tilfinningaþrungin stund og markaði óneitanlega kaflaskil í ævi okkar. Gott var að hitta allt það góða fólk sem kom í búðina í dag og verslaði og finna þá velvild sem það sýndi afa, ömmu og Bjarna frænda og minningu þeirra,“ segir hann.

Óvíst er hvað verður um hús og innréttingar en ljóst er að mikil saga leynist innan veggja Baldurs en svo heitir húsið að Aðalgötu 22. Samkvæmt heimildum Feykis hefur sveitarfélaginu verið boðið að koma að mótun framtíðaráforma verslunarinnar sem ekki er enn ljóst hverjar verða.

Á FB-síðunni  Skín við sólu ma finna skemmtilegar myndir sem Ómars Bragi tók í búðinni í gær, sjá HÉR.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir