Prestsbær hrossaræktarbú ársins 2021 í Skagafirði
Hrossaræktarsamband Skagfirðinga (HSS) hélt tvöfaldan aðalfund fyrir árin 2020 og 2021, þann 19. apríl síðastliðinn í Tjarnarbæ. Við sama tækifæri var verðlaunaveiting til félagsmanna HSS þar sem verðlaun voru veitt fyrir hæst dæmdu kynbótahrossin, hrossaræktarbú ársins og kynbótaknapa ársins, fyrir árið 2021.
Hrossaræktarárangurinn árið 2021 var mjög góður hjá félagsmönnum Hrossaræktarsambandsins, mikið af hátt dæmdum hrossum og þrjár hryssur sem fengu heiðursverðlaun fyrir afkvæmi.
Það var hrossaræktarbúið Prestsbær sem staðsett er í Hegranesi í Skagafirði, í eigu Inga og Ingar Jensen frá Svíþjóð, sem hlaut titilinn hrossaræktarbú ársins 2021 í Skagafirði. Prestsbær er tiltölulega ungt hrossaræktarbú, en hefur þegar náð afburðagóðum árangri og byggir sína ræktun á stofnhryssunni Þoku frá Hólum sem fékk heiðursverðlaun fyrir afkvæmi árið 2012. Þoka er búin að gefa mörg góð afkvæmi og þar á meðal yfirburða ræktunarhryssuna Þóru frá Prestsbæ, sem stóð efst heiðursverðlaunahryssna fyrir afkvæmi á Íslandi á síðasta ári. Það eru dætur Þóru, þær Þrá frá Prestsbæ og Álfamær frá Prestsbæ sem hlutu hvor efsta sætið í sínum flokki (annars vegar 7v.+ og 6 vetra) sem einstaklingar árið 2021 hjá HSS og Þrá var hæst dæmda einstaklingshrossið úr ræktun og eigu hrossaræktarbús í Skagafirði og hlaut Sörlabikarinn. Auk þess sem Þenja frá Prestsbæ dóttir Þoku stóð hefst í sínum flokki (5 vetra). Þetta er magnaður árangur útaf einni hryssu sem minnir hrossaræktendur á hvað góðar hryssur skipta sköpum í hrossaræktarstarfinu.
Tvö hrossaræktarbú voru einnig tilnefnd fyrir góðan ræktunarárangur á árinu en það voru Hof á Höfðaströnd og Hólaskóli.
Þrá frá Prestsbæ hlaut Sörlabikarinn sem hæst dæmda
kynbótahross í Skagafirði 2021. Á myndinni er Þrá á
keppnisbrautinni ásamt Þórarni Eymundssyni á
Fjórðungsmóti í Borgarnesi sl. sumar.
Mynd. Eiðfaxi/Gísli Guðjónsson.
Það var Þórarinn Eymundsson sem var kynbótaknapi ársins 2020 í Skagafirði með nokkrum yfirburðum að þessu sinni, en hann sýndi 34 hross í fullnaðardóm á árinu og þar af 20 hross í yfir 8,0 í aðaleinkunn. Bjarni Jónasson og Barbara Wenzl voru einnig tilnefnd til titilsins með frábæran árangur.
Þrjár hryssur í eigu félagsmanna voru heiðraðar fyrir að hafa náð heiðursverðlaunum fyrir afkvæmi samkvæmt kynbótamati Bændasamtaka Íslands, en það voru Hrísla frá Sauðárkróki (eigandi Hanna Kristín Pétursdóttir), Sefja frá Úlfljótsvatni (eigandi Hofstorfan slf.) og Ösp frá Hólum (eigandi Hólaskóli).
Hér á eftir fylgja upplýsingar um verðlaunahafana hjá HSS fyrir árið 2021:
Stóðhestar 4 vetra
- Fróði frá Flugumýri
- Fannar frá Flugumýri
- Leistur frá Íbishóli
Stóðhestar 5 vetra
1. Töfri frá Þúfum
- Greifi frá Bræðraá
- Óðinn frá Lýtingsstöðum
Stóðhestar 6 vetra
- Seiður frá Hólum
- Vigri frá Bæ
- Hálfmáni frá Hafsteinsstöðum
Stóðhestar 7 vetra og eldri
- Álmur frá Reykjavöllum
- Rosi frá Berglandi
- Djarfur frá Flatatungu
Hryssur 4 vetra
- Rás frá Vindheimum
- Snælda frá Syðra-Skörðugili
- Hringsjá frá Enni
Hryssur 5 vetra
- Þenja frá Prestsbæ
- Staka frá Hólum
- Grá frá Hofi á Höfðaströnd
Hryssur 6 vetra
- Kamma frá Sauðárkróki
- Álfamær frá Prestsbæ
- Bylgja frá Bæ
Hryssur 7 vetra og eldri
- Þrá frá Prestsbæ
- Gjöf frá Hofi á Höfðaströnd
- Elva frá Miðsitju
Hæst dæmda kynbótahross í Skagafirði 2021. Hlaut Sörlabikarinn.
Þrá frá Prestsbæ
Kynbótaknapi ársins í Skagafirði 2021. Hlaut Kraftsbikarinn.
Þórarinn Eymundsson
Tilnefning kynbótaknapi ársins 2021 í Skagafirði.
Barbara Wenzl
Bjarni Jónasson
Heiðursverðlaun fyrir afkvæmi.
Hrísla frá Sauðárkróki
Sefja frá Úlfljótsvatni
Ösp frá Hólum
Hrossaræktarbú ársins í Skagafirði. Hlaut Ófeigsbikarinn.
Prestsbær
Tilnefning Hrossaræktarbú ársins í Skagafirði
Hof á Höfðaströnd
Hólar í Hjaltadal (Hólaskóli)
@ Guðrún Stefánsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.