Nýtum sóknarfærin
„Að koma saman er upphafið; að halda saman eru framfarir; að vinna saman er árangur.“
Fyrstu kosningar til sameinaðs sveitarfélags Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar eru framundan næstkomandi laugardag. Á þeim tímamótum er ágætlega við hæfi að rifja upp framangreind orð bílaframleiðandans og brautryðjandans Henry Ford. Með sameiningunni komum við saman og nú gildir ekki eingöngu að standa saman heldur leggja grunn að góðum árangri með því að vinna saman. Vonandi er að ný sveitarstjórn beri gæfu til þess að gefa tóninn í þeim efnum og ekki er síður vonandi að samstaða á meðal íbúanna verði lyftistöng framfara á ýmsum sviðum.
Við sameininguna verðum við fjölmennasta dreifbýlissamfélag landsins. Dreifbýlið nýtur síðan góðs af fjölbreyttu þjónustuframboði í þéttbýliskjörnunum. Samfélag í dreifbýli styrkist enn frekar með stöðugt fleiri möguleikum til búsetu þar án þess að lífsviðurværið sé háð hefðbundnum búrekstri. Frábær vaxtarskilyrði fyrir atvinnulíf og búsetu eru um allt héraðið.
Við viljum stuðla að því að Skagafjörður verði áfram ákjósanlegur og eftirsóttur staður til að búa á. Undir stjórn Framsóknar hefur á síðustu kjörtímabilum átt sér stað gífurleg uppbygging á innviðum sveitarfélagsins. Ljósleiðaravæðing í dreifbýli hefur til að mynda haft stóraukin atvinnutækifæri í för með sér og eigum við í Skagafirði að nýta sóknarfærin hvað varðar störf án staðsetningar til hins ýtrasta, jafnt í sveitunum sem byggðakjörnunum.
Samhliða uppbyggingu innviða um allan fjörð skiptir einnig miklu máli að umhverfisvæn nýting náttúruauðlinda byggi á bestu fáanlegu tækni og þekkingu. Nýsköpun í tengslum við landbúnað og matvælaframleiðslu hefur sjaldan verið mikilvægari enda verður krafan um sjálfbærni og fullnýtingu afurða sífellt meiri. Í þeirri eftirspurn eru ýmis tækifæri fólgin og við stöndum vel að vígi til þess að vera í fremstu röð á þessu sviði.
Í málefnaskrá Framsóknar í Skagafirði höfum við lagt mikla áherslu á að fjölga íbúum í Skagafirði eins og unnt er. Til þess að það geti orðið að veruleika þarf umgjörð atvinnulífsins, og um leið atvinnutækifæranna, að vera hvetjandi. Grundvallarforsenda þess eru síðan sterkir innviðir, t.d. í samgöngum, raforkuöryggi og háhraðanettengingum sem auðvelda störf óháð staðsetningu. Við höfum náð miklum árangri í þessum efnum á undanförnum árum og full ástæða er til að halda áfram markvissri uppbyggingu á þeim góða grunni.
Samstaða okkar sem byggjum þetta öfluga sveitarfélag er lykilforsenda árangurs. Hún grundvallast á vandaðri upplýsingagjöf, gagnsæi og trausti. Mikilvægt er að allar raddir íbúa heyrist og fái hljómgrunn við ákvarðanatöku sem hefur bein áhrif á daglegt líf þeirra. Að sama skapi er ábyrgur og vel ígrundaður rekstur sveitarfélagsins meginforsenda þess að hægt sé að sinna lögbundnu þjónustuhlutverki sveitarfélagsins. Framsókn hefur lagt sitt af mörkum til þeirra verkefna í forystuhlutverki sínu við stjórnvölinn á undanförnum árum. Við viljum halda áfram á sömu braut og öflugur stuðningur í kosningunum yrði kærkominn byr í seglin.
Eyrún Sævarsdóttir er sérfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og skipar 5. sæti á framboðslista Framsóknar. Tp: eyrun@gmail.com
Hrefna Jóhannesdóttir er skógfræðingur og oddviti Akrahrepps. Hún skipar 3. sæti á framboðslista Framsóknar. TP: hrefnajo@gmail.com
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.