Nýr hátíðarbúningur Pilsaþyts afhjúpaður í gær
Í gær afhenti Pilsaþytur í Skagafirði Sveitarfélaginu Skagafirði kyrtil til afnota fyrir Fjallkonu sveitarfélagsins við hátíðlega athöfn. Frá haustdögum 2019 hefur félagið unnið að því að sauma búninginn en því verki lauk í nóvember á síðasta ári og til stóð að afhenda hann 1. desember en samkomutakmarkanir o.fl. komu í veg fyrir það.
Það var sannkölluð hátíð í Menningarhúsinu Miðgarði þar sem boðið var upp á dagskrá með ávarpi, söng og kaffi með kleinum á eftir. Ásta Ólöf Jónsdóttir hafði orð fyrir Pilsaþytskonum og rakti sögu kyrtilsins frá hugmynd að afhendingu. Kvennakórinn Sóldís tók við keflinu og söng meðan Fjallkonan, klædd kyrtlinum góða, gekk inn salinn í fylgd Pilsaþytskvenna. Það var Heba Guðmundsdóttir sem brá sér í gervi Fjallkonunnar og flutti hún ljóðið Mælifellshnjúkur, eftir Jóhann Guðmundsson í Stapa áður en búningurinn var formlega afhentur Sveitarfélaginu til afnota við hátíðleg tækifæri.
Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri, óskaði félagskonum til hamingju með verkið og fyrir hönd sveitarfélagsins þakkaði fyrir rausnarskap kvennanna. Fram kom í ávarpi Sigfúsar Inga að vinna við smíði á sýningarskáp sé þegar hafinn en kyrtilinn mun verða til sýnis í Safnahúsinu á Sauðárkróki að öllu jöfnu. Að því búnu steig Karlakórinn Heimir á svið og söng áður en boðið var upp á kaffi og kleinur að íslenskum sið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.