Mugison mættur í norðlenska vestrið
Tónlistarmaðurinn vestfirski, Mugison, er nú á ferð um landið með dótið sitt í geggjuðu tónleikamaraþoni og flytur tónlist sína í kirkjum landsmanna. Á þessum túr heldur hann tónleika í eitt hundrað kirkjum í eitt hundrað póstnúmerum en hann hefur þegar spilað í 52. Nú er hann mættur til leiks á Norðurlandi vestra og í kvöld kl. 20 hefur hann upp raust sína í Hvammstangakirkju.
„Hef lengi verið heillaður af öllum þessum kirkjum, þær eru út um allt - í sveitunum, bæjum og öllum hverfum - allsstaðar er kirkja - svo fallegar, dulafullar, kósý og spennandi,“ segir Mugison og heldur áfram: „Ég elska að spila í kirkjum það er eitthvað svo skemmtilega öfgafullt - einsog sum sönglög verði brothættari og fallegri og önnur ýkjast í hina áttina verða gróf og brussuleg. Ég er búinn að sérhanna svið, ljós og hljóðbúnað fyrir þetta tilefni. Verð einn með nokkra gítara, nikku, trommur og kirkjuorgel framtíðarinnar.“
Tónleikarnir eru um klukkutími að lengd, hægt er að nálgast miða á Tix.is á kr. 4.500 en það kostar kr. 5.000 sé greitt við inngang.
Sem fyrr segir hefst Mugison handa hér á Norðurlandi vestra í kvöld, 13. ágúst, í Hvammstangakirkju, miðvikudaginn 14. ágúst verður hann í Blönduóskirkju, 15. ágúst spilar hann í Hólaneskirkju á Skagaströnd, föstudaginn 16. ágúst í Sauðárkrókskirkju og loks verður kappinn í Hofsóskirkju á laugardagskvöldið. Allir hefjast tónleikarnir kl. 20:00.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.