Mínar bestu stundir með prjónana í höndunum og Storytell í eyrunum

Kristbjörg með yngsta barnabarnið, Guðna Frey.
Kristbjörg með yngsta barnabarnið, Guðna Frey.

„Ég er fædd og uppalin á Sauðárkróki, á Skagfirðingabrautinni þar sem ég bý enn,“ segir Kristbjörg Kemp sem segir frá því hvað hún er með á prjónunum þessa dagana. „Ég gekk í barna- og gagnfræðaskólann á Sauðárkróki og síðan í fjölbraut á Króknum. Ég lauk BA prófi í ensku frá HÍ, kláraði kennsluréttindanám frá sama skóla og lauk að lokum meistaranámi frá HÍ þar sem áhersla var lögð á áhættuhegðun ungmenna og forvarnir. Ég vinn í Árskóla og er deildarstjóri á unglingastigi. Maðurinn minn heitir Guðni Kristjánsson og hann kemur frá Siglufirði. Við eigum þrjú börn, Rakel, Kristján Rögnvald og Matthildi, þrjú tengdabörn þau Maríu Önnu, Nandiu og Bjarna Pál. Barnabörnin okkar eru Stefán Þór (10 ára), Davíð Örn (6 ára) og Guðni Freyr (1 árs). Labrador hundurinn Garpur setur svo sinn svip á heimilislífið á Skagfirðingabrautinni.“

Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir? „Ég hef prjónað, með einhverjum hléum, síðan Sólveig í Útvík kenndi mér grunnatriðin. Fyrsta alvöru flíkin sem ég gerði (þá 12 ára) hjá Sólveigu var reyndar heklað ungbarnasett, sem ég notaði töluvert á eldri stelpuna mína. Í handavinnutímunum í barnaskólanum fann ég að hannyrðir yrðu hluti af mínu lífi. Ég á mínar bestu stundir með prjónana í höndunum og Storytel í eyrunum, gjarnan góða sakamálasögu.“

Hvaða handavinna þykir þér skemmtilegust? „Mér finnst alltaf skemmtilegast að prjóna fallegar lopapeysur úr íslenskum lopa. Léttlopi er uppáhalds garnið mitt.“

Hverju ertu að vinna að um þessar mundir? „Ég er að prjóna peysuna Heiði frá Móakoti. Hún er hugsuð sem sparipeysa á Guðna minn og verður ekki ein af veiðipeysunum hans ef ég fæ einhverju ráðið. Ég er svo að fara að prjóna peysu frá Knitting for Olive. Uppskriftin heitir Fern sweater. Ég er búin að kaupa í peysuna og ætla að prjóna hana á Matthildi. Hún fær hana vonandi í afmælisgjöf.“

Hvar fékkstu hugmyndina? „Ég fæ oftast hugmyndir að minni handavinnu frá vinkonum mínum og samstarfsfélögum sem ég prjóna töluvert með. Prjónablöð og prjónabækur eiga svo gjarnan viðdvöl í mínum höndum. Að auki eru fjölmargar síður á Instagram og FB þar sem hugmyndaríkir og flinkir prjónarar láta ljós sitt skína og benda áhugasömum á uppskriftir og þá gjarnan með upplýsingum um hvort uppskriftin hentar byrjendum eða lengra komnum. Ég skoða þessar síður reglulega og hrífst af fjölbreytileika og fegurð verkefnanna.“

Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með? „Ég er ánægðust með lopapeysurnar á dóttursyni mína. Ég hef líka prjónað lopapeysur á tvo samstarfsmenn mína og er mjög ánægð með að hafa gefið þeim hlýja og fallega gjöf.“

Eitthvað sem þú vilt bæta við? „Ég held að allir sem prjóna eigi það sameiginlegt að gleðjast þegar þeir sjá einhvern klæðast handverkinu sínu, t.d. peysu sem prjónuð er af ást og umhyggju fyrir viðkomandi.“

Áður birst í tbl. 48 Feykis 2021.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir