Menningarhús á Sauðárkróki :: Leiðari Feykis
Það kom fram í Sæluvikusetningarávarpi Sigfúsar sveitarstjóra í Skagafirði að innan skamms mætti búast við því að hönnun og framkvæmdir menningarhúss á Sauðárkróki geti farið af stað í kjölfar undirritunar samnings á milli sveitarfélaganna og ráðherra menningar- og fjármála, eins og hægt er að lesa um í Feyki vikunnar. Þetta eru afar góðar fréttir og vissulega við hæfi að segja frá þeim í upphafi menningarhátíðar Skagfirðinga.
Nú veit ég ekkert hvernig húsið muni líta út eða hvernig starfseminni verður háttað en ljóst er að til ýmissa hluta er hægt að nýta það. Í ræðu Sigfúsar nefndi hann að því sé ætlað að vera menningarmiðstöð með áherslu á fræðastörf og sýningar með tilheyrandi aðstöðu. Það verður gaman að sjá hvernig þetta allt saman muni þróast og hvaða sýningar eigi eftir að njóta sín í nýjum húsakynnum.
Upp í hugann koma nokkur atriði sem ég sé fyrir mér eins og munir Listasafns Skagafjarðar, sem mér skilst að geymdir séu víða um bæinn eða jafnvel héraðið, gripir Byggðasafnsins sem hægt væri að hafa til sýnis fyrir almenning og kannski verkstæðin gömlu. Þá er Minjasafn Kristjáns Runólfssonar geymt í kössum og bíður þess að komast fyrir augu forvitinna en það var fært Byggðasafni Skagfirðinga til eignar, segir í ársskýrslu Byggðasafnsins 2012, eftir að hafa verið starfrækt á Selfossi frá árinu 2005. Þangað flutti Kristján safnið eftir að samstarfssamningur við Svf. Skagafjörð, um að sveitarfélagið hýsti það, rann út.
Þá eiga sviðslistir efalaust eftir að njóta sín í húsinu og hafandi unnið með Leikfélagi Sauðárkróks til langs tíma í gömlu Bifröst, hlakka ég verulega til að starfa í nýjum húsakynnum. Þó ég eigi góðar minningar úr Bifröst verður að segjast eins og er að aðstaðan er barn síns tíma fyrir listafólk hvers konar, starfsfólk og ekki síst gesti.
En þá stendur stóra spurningin eftir, hvað á að gera við Bifröst? Nógur er tíminn til að finna það út því menningarhúsið kemst ekki í gagnið strax. Það á eftir að gera helling. Þangað til læt ég Bifröst duga í þá menningu sem ég kem nálægt. Það mætti kannski hverfa til upprunans og halda dansleiki á ný. Hver sem man þá hlýtur að brosa núna!
HÉR er hægt að nálgast útfærslur og áætlanir um menningarhús í Skagafirði frá því í maí 2004.
Góðar stundir og gleðilega Sæluviku.
Páll Friðriksson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.