KUSK sigraði Músíktilraunir og á ættir að rekja á Krókinn

KUSK á sviðinu. MYND AF SÍÐU MÚSÍKTILRAUNA
KUSK á sviðinu. MYND AF SÍÐU MÚSÍKTILRAUNA

Úrslit Músíktilrauna 2022 fóru fram í Hörpu í gærkvöldi en Músíktilraunir eiga sér 40 ára sögu en þar lætur ungt tónlistarfólk ljós sín skína og tilraunirnar oft stökkpallur inn í glæsta framtíð á tónlistarsviðinu. Í gær var það KUSK sem bar sigur úr býtum og eftir því sem Arnar Eggert, tónlistarvitringur, segir mun þetta vera í fyrsta sinn sem einstaklingur sigrar keppnina því á bak við KUSK stendur 18 ára snót af höfuðborgarsvæðinu, Kolbrún Óskarsdóttir, sem rekur ættir sínar til Vopnafjarðar og Skagafjarðar.

Kolbrún semur, syngur og framleiðir flest sín lög sjálf en hún hlaut einnig verðlaunin rafheili músíktilrauna og sömuleiðisviðurkenningu fyrir textagerð á íslensku. Hreint glæsilegur árangur. „Kolbrún talar beint inn í samtímann þar sem tónlistarkonur eins og Bríet og GDRN fara mikinn. Örugg á sviði og sjarmerandi, tónlistin svalt og umlykjandi rafpopp með vísunum í Vök og GusGus. Góðir og einlægir textar einnig. Ég óska þess að Kolbrún fari sem allra lengst,“ segir Arnar Eggert í smá samantekt um Músíktilraunir á Facebook.

Samkvæmt heimildum Feykis er Ingibjörg, móðir Kolbrúnar, Vopnfirðingur í báðar ættir, jafnvel allt aftur að landnámi – eða rúmlega það. Pabbi hennar er hins vegar Óskar Örn Óskarsson, læknir og fyrrum gítarleikari í hinu ástsæla Segulbandi sem gerði út frá Króknum um nokkurt skeið seinni part síðustu aldar, skipað nokkrum valinkunnum bekkjarfélögum af árgangi '73. Óskar Örn er sonur Óskars læknis Jónssonar, sem er auðvitað sprungulaus Króksari, og Aðalheiðar sjúkraliði Arnórs sem bjuggu í Túnahverfinu á Króknum.

Þess má geta að tvær hljómsveitir af Norðurlandi vestra hafa unnið Músíktilraunir; fyrst Jójó frá Skagaströnd árið 1988 og síðan Bróðir Svartúlfs frá Sauðárkróki árið 2009.

Um leið og Feykir óskar KUSK til hamingju með glæsilega útkomu í gær þá má alveg benda lesendum á að pabbi hennar svaraði Tón-lystinni í Feyki fyrir þremur árum >

Annars voru úrslit Músíktilraun 2022 með þessum hætti:
1.sæti. KUSK
2.sæti. Gunnar Karls
3.sæti. Sameheads

Hljómsveit fólksins: Bí Bí & Joð

Einstaklingsverðlaun:
Söngur: Svanhildur Guðný Hjördísardóttir, Bí Bí & Joð
Bassi: Friðrik Örn Sigþórsson, Project Reykjavík
Hljómborð: Magnús Þór Sveinsson, Project Reykjavík
Gítar: Oliver Devaney, Sameheads
Trommur: Mikael Magnússon, Merkúr
Rafheili: Kolbrún Óskarsdóttir, Kusk
Íslenskir textar: Kolbrún Óskarsdóttir, Kusk

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir