Kristinn Gísli hreppti annað sætið í Kokki ársins
Króksarinn og eðalkokkurinn Kristinn Gísli Jónsson varð í öðru sæti í keppninni Kokkur ársins 2022 sem fram fór í Ikea sl. laugardag. Rúnar Pierre Henriveaux hlaut nafnbótina Kokkur ársins og Gabríel Kristinn Bjarnason landaði þriðja sætinu.
Á Veitingageirinn.is segir að keppnin hafi verið æsispennandi en hún fór fram í sérútbúnum keppniseldhúsum í miðri verslun IKEA en um það bil 10.000 gestir kíktu á keppnissvæðið. Afar mjótt var á munum í keppninni þar sem Rúnar var með 254,7 í heildarstig, Kristinn með 254,1 stig og Gabríel með 251,5.
Keppendur elduðu þriggja rétta máltíð fyrir dómarana en dregið var um í hvaða eldhúsi þeir kepptu í úrslitakeppninni en sá fyrsti byrjaði að elda kl. 11, sá næsti fimm mínútum síðar og svo koll af kolli. Sama var upp á teningnum þegar keppendur skiluðu fyrsta rétti, en eldhús 1 skilaði kl. 16:00 og svo næsti fimm mínútum síðar o.s.frv. Áhorfendum og viðskiptavinir Ikea sem áttu leið fram hjá keppniseldhúsunum gátu dottið í lukkupottinn og fengið að smakka af réttum meistaranna þegar keppendurnir skiluðu af sér réttum, segir í frétt Veitingageirans.
Það er Klúbbur matreiðslumeistara sem hefur veg og vanda að keppninni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.