Kristinn Gísli hreppti annað sætið í Kokki ársins

F.v. Kristinn Gísli Jónsson 2. sæti, Rúnar Pierre Henriveaux 1. sæti, Gabríel Kristinn Bjarnason 3. sæti.
F.v. Kristinn Gísli Jónsson 2. sæti, Rúnar Pierre Henriveaux 1. sæti, Gabríel Kristinn Bjarnason 3. sæti.

Króksarinn og eðalkokkurinn Kristinn Gísli Jónsson varð í öðru sæti í keppninni Kokkur ársins 2022 sem fram fór í Ikea sl. laugardag. Rúnar Pierre Henriveaux hlaut nafnbótina Kokkur ársins og Gabríel Kristinn Bjarnason landaði þriðja sætinu.

Á  Veitingageirinn.is segir að keppnin hafi verið æsispennandi en hún fór fram í sérútbúnum keppniseldhúsum í miðri verslun IKEA en um það bil 10.000 gestir kíktu á keppnissvæðið. Afar mjótt var á munum í keppninni þar sem Rúnar var með 254,7 í heildarstig, Kristinn með 254,1 stig og Gabríel með 251,5.

Keppendur elduðu þriggja rétta máltíð fyrir dómarana en dregið var um í hvaða eldhúsi þeir kepptu í úrslitakeppninni en sá fyrsti byrjaði að elda kl. 11, sá næsti fimm mínútum síðar og svo koll af kolli. Sama var upp á teningnum þegar keppendur skiluðu fyrsta rétti, en eldhús 1 skilaði kl. 16:00 og svo næsti fimm mínútum síðar o.s.frv. Áhorfendum og viðskiptavinir Ikea sem áttu leið fram hjá keppniseldhúsunum gátu dottið í lukkupottinn og fengið að smakka af réttum meistaranna þegar keppendurnir skiluðu af sér réttum, segir í frétt Veitingageirans.

Það er Klúbbur matreiðslumeistara sem hefur veg og vanda að keppninni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir