Iðunn Kolka Gísladóttir sigraði í Stóru upplestrarkeppninni í Skagafirði
Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Skagafirði var haldin í sal FNV í gær. Stóra upplestrarkeppnin hefur verið haldin í 21 skipti í Skagafirði, en ein lokahátíð féll niður vegna covid. Stóra upplestrarkeppnin er miklu meir en keppni einn dagpart því er markvisst unnið með framsögn í skólastarfi allt frá degi íslenskrar tungu á ári hverju, en markmið Stóru upplestarkeppninnar er að allir nemendur fái þjálfun í því að lesa upp, sjálfum sér og öðrum til ánægju.
Á lokahátíðinni öttu kappi ellefu lesarar úr öllum grunnskólum Skagafjarðar og lásu sögubrot og tvö ljóð. Fóru leikar þannig að Iðunn Kolka Gísladóttir úr Varmahlíðarskóla hlaut fyrstu verðlaun, Helgi Sigurjón Gíslason úr Árskóla önnur og Lára Sigurðardóttir úr Árskóla þau þriðju. Voru lesarar og varamenn þeirra sem einnig fluttu ljóð á hátíðinni til mikillar fyrirmyndar og sjálfum sér og skólum sínum til sóma.
Nemendur úr Tónlistarskóla Skagafjarðar austan Vatna sáu um tónlistarflutning af stakri prýði og keppendur frá fyrra ári, þær Bríet Bergdís, Heiðdís Pála og Ingunn Marín stýrðu samkomunni styrkri hendi. Kaupfélag Skagfirðinga gaf verðlaunin á hátíðina og Forlagið færði öllum keppendum bókina Hingað og ekki lengra! eftir Hildi Knútsdóttur og Þórdísi Gísladóttur að gjöf.
/Laufey Leifsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.