Í Austurdal í Framhéraði Skagafjarðar

Á dögunum leitaði hugurinn til myndarinnar Í Austurdal þar sem Stefáni Hrólfssyni á Keldulandi á Kjálka er fylgt um Austurdal bæði í ferðum og léttu spjalli. Fjallaunnandinn og hestamaðurinn Stefán fer á kostum í myndinni með léttleik sínum og virðingu fyrir umhverfinu. Myndin sýnir ekki bara heillandi og mikilfenglegt umhverfi heldur ekki síður væntumþykju og ást á dalnum fagra. Menn bókstaflega ljóma þegar þeir ríða um sléttar grundir dalsins og virða fyrir sér umhverfið, frjálsir frá erli hversdagslífsins og ekkert annað kemst að en að njóta stundarinnar. Í svona dal getur ekkert slæmt leynst, allir eru jafnir og ekki möguleiki fyrir nokkurn mann að vera í vondu skapi. Sannarlega frábær mynd og eftirminnileg og ekki hægt annað en að hrífast með.

Austurdalur er mikill og langur dalur enda a.m.k. 45 km frá Geldingsá niður að ármótum við Vestari-Jökulsá. Margt hefur dalurinn til brunns að bera og ekki nokkur vafi að skaparinn hefur verið í gleðikasti þegar hann var við störf. Jarðfræðin er sérstök en leifar af gamalli megineldstöð er við dalinn með einhverri litadýrð og auk þess ljósar skriður, fallegt stuðlaberg og surtarbrandslög svo eitthvað sé nefnt. Brattar skriðurunnar hlíðar liggja að dalnum beggja vegna og afmarka hann vel. Nokkrir þverdalir liggja á megindalinn og sumir þeirra allstórir, djúpir og nokkuð gróðursælir. Gróðurfarið er fjölbreytt og öflugt og ná birkihríslur að vaxa í hvað mestri hæð á landinu eða í yfir 600 m hæð. Í Fögruhlíð er skógarlundur með margra metra háum trjám í um og yfir 400 m hæð.

Vöxtulegur er hann eins og utar í héraðinu í 100-200 m hæð. Veðurfarið er enda sérstakt og hvað næst því að vera meginlandsloftslag, ef það er hægt að tala um slíkt á Íslandi. Úrkoma er lítil, almennt snjólétt, oftast sumargott en frost og staðviðri algeng á vetrum. Austari-Jökulsá sem hlykkjast um dalbotninn er engin smáspræna heldur illvíg jökulelfa sem fellur víða í þröngum gljúfrum með töfrandi tilþrifum. Hefur áin sargað og sorfið landið og breytt því fram og til baka, myndað gljúfur og gil með tuga metra háum ókleifum klettum en á einstaka stöðum rennur hún tiltölulega friðsæl og nánast hjalar við bakkana.

Sannarlega bæði hrikaleg og heillandi í senn enda telur flúðasiglingafólk þetta einhverja bestu á sem til er. Í dag eru örfáir íbúar sem teljast til dalsins en áður fyrr voru býli fram um allar búanlegar koppagrundir. Skáldið og hagleiksmaðurinn Bólu-Hjálmar er sennilega þekktasti íbúi dalsins en hann var eitthvað að bauka á Nýjabæ um fimm ára skeið á fyrri hluta 19. aldar.

Það er þó heildaryfirbragð dalsins, fjarlægð frá byggð, fjölbreytnin, kyrrðin, stærðin og nálægðin við hálendið sem gerir svæðið ekki hvað síst spennandi og eftirsóknarvert. Dalurinn verkar sterkt á fólk með sínu dulmagni, friðsæld og fegurð. Sá sem er þarna á ferð og skynjar þetta ekki er annaðhvort steindauður eða það dofinn að hann ætti að fá viðtal hjá lækni og jafnvel biðja um innlögn.

Gráni og Sesseljubær við Geldingsá.

Sá sem þetta ritar hefur orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að heimsækja dalinn nokkrum sinnum og alltaf stendur hugurinn til að fara þangað í fleiri ferðir. Eftirminnileg tveggja daga ferð fyrir tæpum 20 árum stendur þar nokkuð upp úr enda með góðum ferðafélögum í frábæru veðri. Keyrt var upp að Grána við Geldingsá og gengið þaðan niður dalinn, gist í Hildarseli og svo seinni daginn gangan kláruð með ferð yfir Jökulsá á kláfnum við Skatastaði. Að mati náttúrufræðinga sem voru í túrnum væri sennilega fyrir löngu búið að gera dalinn að þjóðgarði ef hann væri í öðru vestrænu ríki. Í raun var ekki hægt að skilja betur en svo að það væri bókstaflega kjánalegt að dalurinn væri ekki einhverskonar verndarsvæði. 
Vill virkilega einhver leggja til að stórar óafturkræfar framkvæmdir séu mögulega á teikniborðinu í dalnum eða í næsta nágrenni slíkrar perlu? Varla vill nokkur maður hafa það á samviskunni. Hvert mannsbarn, sem yfir höfuð nennir að hugsa, veit að lítt snert eða ósnert náttúra verður mesta dýrmæti þjóðarinnar í komandi framtíð.

Hjalti Þórðarson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir