Hvernig á að tryggja okkur nægt rafmagn til að geta ráðist í stórtæk orkuskipti?
Ljóst er að Íslendingar verða að auka raforkuframleiðslu þjóðarinnar talsvert ef við eigum að geta fylgt eftir áætlun stjórnvalda um orkuskipti. Skagfirðingar verða að gæta hagsmuna sinna og tryggja afhendingaröryggi á nægjanlegri orku fyrir fólkið sem býr í héraðinu og atvinnulífið. Jafnframt ber að leggja áherslu á að vera með hleðslustöðvar sem víðast, ekki aðeins fyrir bílana okkar heldur einnig fyrir skip og jafnvel flugvélar, ef við erum hæfilega framsýn . Ef spár ganga eftir þurfum við á komandi árum umtalsvert meira magn af rafmagni en við notum í dag. Þá er um leið eðlilegt að spyrja sig að því hvar og hvernig við náum í þetta rafmagn?
Það er mikilvægt í þeim efnum að við könnum alla þá möguleika sem eru í boði eftir þeim leikreglum sem stjórnvöld setja og er ég þá að tala um nýtingu á m.a. vatnsorku, vindorku og sjávarföllum. Suma af þessum kostum er búið að skoða lengi en í öðrum erum við að stíga okkar fyrstu skref, samanber þá vinnu um hugsanlega staði fyrir vindorkuver sem nú er búið að setja í aðalskipulag Skagafjarðar.
Það er mikilvægt hagsmunamál fyrir þjóðina að skipta út óendurnýjalegu jarðefniseldsneyti fyrir endurnýjanlega og græna orku. Vanda þarf vel alla undirbúningsvinnu og setja skýr markmið um samspil virkjana, flutningskerfis og náttúru. Við verðum að hafa skýra sýn á hvert skal halda í þessum málum því ekki er hægt að tryggja orkuskipti ef ekkert er rafmagnið.
Þetta, ásamt fjölmörgum öðrum góðum málefnum, mun ég beita mér fyrir á komandi kjörtímabili fáum við hjá Framsókn brautargengi til þess.
Setjum X við B fyrir sterkan Skagafjörð.
Sigurður B Rafnsson,
4. maður á lista Framsóknar í Skagafirði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.