Horfum til framtíðar - Aðalskipulag fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð 2020-2035

Frá fundi vegna skipulagsmála í Húsi frítímans á Sauðárkróki. Myndir aðsendar.
Frá fundi vegna skipulagsmála í Húsi frítímans á Sauðárkróki. Myndir aðsendar.

Á vordögum 2019 samþykkti sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar að hefja vinnu við endurskoðun á gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins, en aðalskipulag er skipulagsáætlun sem nær til alls lands sveitarfélagsins. Í aðalskipulaginu er mótuð stefna um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar ásamt því að sett er fram stefna sveitarstjórnar um byggðaþróun, samgöngur, reiðleiðir, gönguleiðir og margt annað sem snýr að gerð og þjónustu sveitarfélagsins.

Í vinnuferlinu var frá upphafi mikið lagt upp úr því að eiga gott samráð og samtal við íbúa og hagsmunaðila við gerð aðalskipulagsins. Leitað var til íbúa Skagafjarðar þar sem þeim var gefinn kostur á að koma á framfæri sínum skoðunum og sjónarmiðum um framtíðarsýn á fyrirkomulag byggðar og þjónustu í sveitarfélaginu. Fyrst var leitað til nemenda í 7. og 9. bekk grunnskólanna þriggja í Skagafirði þar sem þeir svöruðu spurningum og settu fram hugmyndir um hver væri þeirra framtíðarsýn fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð. Haldnir voru fjórir íbúafundir auk þess sem fólki var gefinn kostur á að koma hugmyndum sínum á framfæri í gegnum samráðsvefinn Betra Ísland.

Við gerð skipulagsins og mótun tillagna var tekið mið af þeim sjónarmiðum sem komu fram á þessum fundum. Einnig var skipulagstillagan kynnt íbúum og hagsmunaaðilum á vinnslustigi og höfðu íbúar þá tækifæri til að gera formlegar athugasemdir við efni hennar. Í kjölfarið var svo fundað með fjölmörgum einstaklingum og hagsmunahópum um mismunandi útfærslur á einstaka þáttum skipulagsins og komist að sameiginlegri niðurstöðu sem þjónar sem flestum, en eitt af hlutverkum skipulags- og byggingarnefndar er að leiða til lykta ólík sjónarmið um gerð samfélagsins og þarfir þess.

Á íbúafundunum kom fram skýr vilji um íbúafjölgun í Skagafirði og að sveitarfélagið hefði sterka innviði til að taka á móti þeirri fjölgun. Í nýju aðalskipulagi er áætlað að íbúum Skagafjarðar fjölgi um 0,5% að meðaltali á ári út skipulagstímabilið, sem jafngildir um 370 manns á 15 árum. Mikilvægt er að þessari fjölgun verði fylgt vel eftir með öflugri uppbyggingu á allri þjónustu fyrir íbúa ásamt fjölbreyttu og öflugu atvinnulífi. Það er megininntak nýs aðalskipulags að móta umgjörð til að sett markmið náist.

Höfnin á Hofsósi.

Þéttbýlisuppdrættirnir af Sauðárkróki, Varmahlíð, Steinsstöðum, Hólum og Hofsósi voru endurskoðaðir og uppfærðir. Á öllum stöðunum er nú tryggt að nægjanlegt landrými er fyrir íbúabyggingar til næstu áratuga og einnig að svæði fyrir atvinnuuppbygginu eru til staðar. Á bæði Sauðárkróki og í Varmahlíð koma inn ný íbúa- og athafnasvæði ásamt því að breytingar verða gerðar á öllum stöðunum um gerð og nýtingu svæða.

Mikil vinna var lögð í uppfærslu á tillögum að reiðleiðum um sveitarfélagið og var sú vinna unnin meðal annars í samráði við hestamannafélög og ferðaþjónustuaðila. Jafnframt er lögð áhersla á að göngu- og hjólastígum fjölgi bæði innan þéttbýlis og milli þeirra. Af öðrum stórum samgönguþáttum má nefna beina tillögu um vegtengingu yfir á Kjálka með nýrri brú yfir Héraðsvötnin. Sú vegtenging eykur lífsgæði þeirra sem búa í framhluta héraðsins ásamt því að opna nýjar leiðir fyrir ferðamenn með hringakstri um héraðið. Einnig er lagt til að veggöng verði milli Siglufjarðar og Fljóta og veggöng undir Hjaltadalsheiði, en með þeim munu byggðir vestan Tröllaskaga tengast betur við Eyjafjörðinn.

Í skipulaginu er lögð áhersla á skynsamlega nýtingu opinna svæða með það að markmiði að svæðin henti til leikjaiðkunar og útivistar. Einnig er gert ráð fyrir stækkun golfvallarins á Sauðárkróki bæði til vesturs og síðan til suðurs í átt að Sauðá frá núverandi svæði. Á Sauðárkróki er áfram stefnt að því að ný íbúabyggð sé staðsett á Nöfunum. Áður fyrirhuguð vegtenging yfir Sauðá var felld brott en í staðinn er gert ráð fyrir að framtíðar vegtenging upp á Nafirnar verði norðarlega í bænum. Vinna við nánari útfærslu á þeirri leið þarf síðan að fara í vinnsluferil í framhaldi af samþykkt þessa skipulags.

Í þessu nýja aðalskipulagi er lögð áhersla á að vernda gott landbúnaðarland en á íbúafundum kom fram krafa um mikilvægi þess að sveitarfélagið stæði vörð um slík svæði. Búið er að grófflokka land í Skagafirði og skilgreina hvaða gerðir lands tilheyra hverjum flokki en markmið sveitarfélagsins er að reyna eftir fremsta megni að tryggja að gott ræktanlegt land verði notað undir ræktun á grasi eða aðra fóðuröflun fyrir menn eða dýr.

Skipulags- og byggingarnefnd 2019.

Í aðalskipulaginu er gerð tillaga að hugsanlegri staðsetningu vindmyllugarða til rafmagnsframleiðslu en tillagan byggir á athugun á vindafari og mögulegum tengingum við núverandi flutningskerfi. Áherslur sem sveitarfélagið leggur við frekari skoðun á möguleikum til að nýta vindorku eru að svæðin séu ekki nálægt líklegum farleiðum fugla og að þau þurfi að vera í ásættanlegri fjarlægð frá þéttbýli og vinsælum útivistar- eða ferðamannastöðum. Jafnframt að tengingar frá þeim verði jarðstrengir.

Endurskoðunin á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar var viðamikið verkefni, en í stuttri samantekt sem þessari er einungis hægt að gera grein fyrir hluta þeirra mála sem tekið var á í því ferli. Aðalskipulagið er hins vegar og verður áfram lifandi plagg sem þarf að endurskoða eftir þörfum en ein af þeim breytingum sem nú hafa verið gerðar er að öll kort og uppdrættir eru framvegis á stafrænu formi sem á að auðvelda og einfalda alla vinnu við breytingar í framtíðinni.

Einar E. Einarsson, formaður.

Skipulags- og byggingarnefnd vill þakka öllum íbúum Skagafjarðar sem þátt tóku í vinnu við endurskoðun á aðalskipulaginu ásamt starfsfólki Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Verkfræðistofunni VSÓ sem leiddi verkefnið. Jafnframt vonum við að íbúar muni áfram taka þátt í þeim breytingum sem gerðar verða á komandi árum en öllum samfélögum er nauðsynlegt að hafa góða sýn á framtíðarmöguleika og þarfir síns samfélags.

Aðalskipulag fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð 2020-2035 er nú aðgengilegt á heimasíðu sveitarfélagsins.

 

Einar E. Einarsson, formaður
Regína Valdimarsdóttir, varaformaður
Álfhildur Leifsdóttir, ritari
Sveinn F. Úlfarsson, áheyrnarfulltrúi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir