Hestamennska í Skagafirði
Hestamennskan í Skagafirði er mér mikið hjartans mál enda sat ég í fyrstu stjórn Hestamannafélagsins Skagfirðings til fimm ára. Hestaíþróttir er ein fjölmennasta íþróttagreinin innan ÍSÍ sem segir þó nokkuð um umfang hennar. Hestamannafélagið Skagfirðingur er eitt stærsta hestamannafélag landsins og fjölmennasta íþróttafélag sveitarfélagsins.
Hesturinn snertir marga
Hér í Skagafirði höfum við Háskólann á Hólum sem er í fararbroddi í heiminum í þróun, þekkingu og reiðmennsku á íslenska hestinum. Þar eru framúrskarandi reiðkennarar við störf, með gríðarlega ástríðu og faglega þekkingu í faginu. Nemendur Háskólans á Hólum hafa komið alls staðar að úr heiminum og er ávallt mikil aðsókn að skólanum. Þetta eitt eru mikil verðmæti fyrir samfélagið okkar hér í Skagafirði.
Við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki er boðið upp á hestabraut á framhaldskólastigi og er það braut sem hefur vaxið mikið frá upphafi. Fjölbrautaskólinn notar reiðhöllina Svaðastaði fyrir verklega kennslu og þar fyrir utan er hún opin fólki til að stunda sína hestamennsku, sem og leigð til einkanota, t.d. námskeiðahald, æfinga o.þ.h. Iðjan hefur höllina til afnota á ákveðnum tíma einu sinni í viku, en íslenski hesturinn er einmitt notaður víða um heim til að bæta lýðheilsu fólks. Hestamannafélagið Skagfirðingur er með mjög metnaðarfullt æskulýðs- og fræðslustarf í reiðhöllinni. Keppni í hestaíþróttum er mjög vinsæl í reiðhöllinni, sérstaklega yfir vetrartímann og skipar þar Meistaradeild KS sér stærstan sess hvað varðar umgjörð og fjölda áhorfenda. Skagfirska mótaröðin hefur verið haldin um árabil. Einnig eru haldnar vinsælar stórsýningar, samanber Tekið til kostanna á vorin og Laufskálaréttarsýning á haustin. Hér stikla ég á stóru um það sem fer fram í reiðhöllinni og er dagskráin orðin mjög þétt.
Reiðhöllin Svaðastaðir sem íþróttamannvirki
Skagfirskir hestamenn eru og hafa ávallt verið stórhuga og hugsað til framtíðar. Því var reiðhöllin Svaðastaðir byggð árið 2002 af mikilli hugsjón, elju og þrekvirki fyrir hestamennskuna í Skagafirði, en hún var ein af fyrstu reiðhöllum á landinu sem reis utan höfuðborgarsvæðisins. Hlutafélagið Fluga ehf. sér um rekstur reiðhallarinnar. Margir einstaklingar stukku á árarnar og keyptu hlut til að þetta yrði að veruleika. Stærstu hluthafar eru Sveitarfélagið Skagafjörður, Hestamannafélagið Skagfirðingur og Hrossaræktarsamband Skagfirðinga.
Reiðhöllin er orðin 20 ára og komin tími á viðhald á ýmislegt. Hestamennskan er líklega eina íþróttagreinin í Skagafirði sem þarf að sjá um og borga stóran hlut af viðhaldi og rekstri á sinni aðstöðu. Það hefur ekki tíðkast að önnur íþróttafélög þurfi að sjá um og borga viðhald á sinni íþróttaaðstöðu. Nefna má í þessu samhengi að samningur um rekstur á reiðhöllinni rann út árið 2020 og enn er ekki kominn viðunandi samningur fyrir alla aðila sem koma að rekstri hennar.
Hlutafélagsform á reiðhöll til íþróttaiðkunar í opinberum tilgangi tel ég vera barn síns tíma og því þarf að breyta. Við hjá Vinstri grænum og óháðum í Skagafirði viljum finna lausnir og vinna ötullega að því að reiðhöllin Svaðastaðir geti verið skráð sem íþróttamannvirki eins og hver önnur íþróttaaðstaða sem er í boði fyrir íbúa Skagafjarðar. Annað er ekkert annað en mismunun á íþróttagreinum og fólkinu sem stundar hverja íþróttagrein fyrir sig. Félagssvæði Skagfirðings á ekki að vera eftirbátur annarra íþróttasvæða í Skagafirði, þar með talin reiðhöllin Svaðastaðir.
Aðgengi og öryggi
Aðgengi og öryggi fólks á hestbaki er mikilvægur þáttur. Þar má nefna gott aðgengi að og á reiðvegum innan sveitarfélagsins, sem og á áningarstöðum. Lýsing í hesthúsahverfum sveitarfélagsins þarf að bæta sem og umferðargötur. Snjómokstur í hesthúsahverfum tel ég að ætti að vera framar í forgangsröð heldur en verið hefur, bæði vegna aðgengi sjúkrabíls ef slys ber að höndum og svo að sjálfsögðu til þess að leiðin sé greið til að fóðra og annast dýr.
Lyftum hestinum upp
Hesturinn er hluti af lífi og menningu okkar Skagfirðinga og mun alltaf vera það. Þótt ýmislegt gott hafi verið gert fyrir hestamennskuna í Skagafirði, þá finnst mér að bera mætti enn meiri virðingu fyrir hestinum og fólkinu sem er í kringum hann. Hesturinn á einstaka sögu hér í Skagafirði þar sem margir af frægustu hrossaræktendum og hestamönnum fyrri tíma ruddu brautina. Talið er að fyrsta hrossið sem nafngreint er í Íslendingasögum, hryssan Fluga, hafi fyrst stigið fæti á Íslandi einmitt hér í Skagafirði, svo dæmi sé tekið.
Þarna tel ég að gætu legið ýmiss ónýtt tækifæri í markaðssetningu, tengdri okkar sögu og íslenska hestinum. Hægt væri að kynna fjörðinn okkar enn betur út á þessa einstöku sögu íslenska hestsins og hrossaræktar hér í Skagafirði.
Ég hvet alla Skagfirðinga, að mæta á kjörstað og nýta kosningarétt sinn í sveitastjórnakosningunum þann 14. maí næst komandi.
Pétur Örn Sveinsson
Skipar 3. sæti á lista Vinstri grænna og óháðra í Skagafirði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.