Heiðursborgari Skagafjarðar stjórnar jarðýtu og brýtur land til ræktunar
Hvað gerir heiðursborgari Sveitarfélagsins Skagafjarðar eftir að hann hefur lokið farsælu starfi við ritun og útgáfu tíu binda ritraðar Byggðasögu Skagafjarðar? Jú, hann fær lánaða jarðýtu og brýtur land til ræktunar á stórbúi í Blönduhlíð.
Það þarf vart að kynna Hjalta Pálsson, ritstjóra Byggðasögunnar, sem fyrir stuttu var útnefndur heiðursborgari Svf. Skagafjarðar á útgáfuhátíð síðasta bindis ritraðarinnar og haldin á Hofsósi en fyrsta bókin kom út árið 1999. Hjalti hefur sagt fólki frá því að hann væri kominn með vinnu og verða sumir skrítnir í framan sem ekki þekkja fortíð hans þegar hann útskýrir að hann sé farinn að vinna á jarðýtu. Blaðamaður hitti á Hjalta þar sem hann var að ýta niður skurðbakka en áður hafði hann fjarlægt víðitré og grafið svo hægt væri að breyta stykkinu í fallegt tún.
„Fyrir meira en hálfri öld byrjaði ég sem ungur maður að vinna á jarðýtu hjá Búnaðarsambandi Skagfirðinga, tvítugur að aldri, og vann á jarðýtu öll mín skólaár og lengur,“ segir Hjalti sem öll sumur í samfellt 14 ár vann á ýtu eða til ársins 1980. „Nú er maður bara komin í endurnýjun lífdaga, farinn að vinna og leika sér á jarðýtu.“
Hjalti segist hafa fengið ýtuna lánaða hjá vini sínum sem einnig er gamall ýtumaður, Jóni Ásmundssyni, á Austari-Hóli í Flókadal í Fljótum, Caterpillar D4 en Hjalti vann mest á þannig tækjum.
„Afskaplega hentug vél í verkefni dagsins, þær voru nú ekki þannig gömlu vélarnar sem maður var á. Þessi er með tönn sem bæði er hægt að skekkja á glussa og einnig halla tönninni, afskaplega góð í svona vinnu eins og að bylta flög. Þetta er yfir 30 ára gömul vél, tólf þrettán tonn, á breiðum beltum og ýtir vel, mjög gott tæki. Það er eitt og annað sem þarf að gera og í rauninni þyrfti að vera lítil jarðýta á hverju góðu búi.“
Hjalti segir Jón hafa fundið þessa ýtu einhvers staðar suður í Evrópu og keypt hana að gamni sínu og komið með hana norður í Fljót. „Þetta er rúmlega 30 ára gömul vél og helvíti góð í þetta verkefni. Við töluðum um það fyrir tveimur árum síðan að hann myndi lána mér ýtuna og svo færi ég hingað í Vagla til dóttur minnar og tengdasonar og reyndi að fegra aðeins hjá þeim jörðina,“ segir Hjalti en ábúendurnir sem hann nefnir eru hjónin María og Gísli Björn Gíslason.
„Það er nú búið að rækta mest sem hægt er en það eru alls konar skeklar eftir, lítil horn og minni háttar stykki sem má reyna að gera að túni. Ég verð hér í svona hálfan mánuð að dútla. Ég vinn nú ekki tólf tíma á sólarhring eins og maður gerði áður en það gerir ekkert til.“
Hafði góðan kennara
Ekki veit blaðamaður hvernig það er að stökkva upp í jarðýtu eftir hálfrar aldar hlé og byrja að vinna á henni. Þarf ekki smá tíma til að átta sig?
„Nei nei, þetta er fljótt að koma. Þetta býr í manni. Ég hafði góðan kennara sem hét Agnar Hermannsson, við unnum saman í mörg ár. Svo var ég í tvö ár með hinum fræga Ýtu-Kela. Við voru saman austur á Fjarðarheiði og síðan annað sumar hér í Skagafirði í vegavinnu.
Ég hafði vel launaða atvinnu á mínum skólaárum og þurfti aldrei að taka námslán. Ég gerði það ekki og má kannski segja að ég hafi stórtapað á því,“ segir Hjalti í gamansömum tón og vísar til þess að þá voru lánin óverðtryggð og eyddust upp í verðbólgunni.
„Ég hafði alltaf nóg og átti meira að segja og rak bíl á þessum árum. Þá fékk maður almennilegt sumarfrí frá skólanum sem hófst ekki fyrr en í október og maður gat unnið út allan september. Þetta er orðið ómannúðlegt eins og þetta er í dag,“ segir hann og á þá við hve sumarfrí námsfólks eru stutt og lítið um uppgrip.
„Ég man eftir einu sumri. Þá keyptu þeir saman ýtu Ragnar Björnsson, frá Hólum, og Pálmi á Áka og tveir í viðbót. Risastórt verkfæri, International 37 tonna jarðýta, og þeir fengu mig til að koma. Ég var þá hjá Búnaðarsambandinu en þeir sögðust myndu borga mér gott kaup og ég náttúrulega stökk á það. Gríðarlega mikil vinna og við vorum m.a. í Höfðahólunum sem var eitthvert það djöfullegasta land sem ég hef lent í, það var svo hart og illt viðfangs en þessi vél réði við það. Við vorum þarna allan júlímánuð og eitthvað fram í ágúst. Júlímánuðurinn var sérstaklega heitur og þessi vél var þannig, ólíkt þessari sem ég er með núna, að vatnskassinn blés aftur og mikill hiti myndaðist inni í vélinni. Eina vikuna var yfir 20 stiga hiti á hverjum einasta degi og það voru hryllilegir dagar að vinna dagvaktirnar. Þá var maður fegin að vinna næturvaktirnar. Það varð svo heitt í vélinni að það var alveg að drepa mann.
Það þurfti að nýta þetta stóra tæki þannig að þennan mánuð unnum við alla daga hvern einasta dag, engin fríhelgi og ég hafði mikið kaup þá. En þetta var mikil vinna, átta tíma vaktir frá mánudagsmorgni til laugardagskvölds. Þeir eru aðeins styttri dagarnir núna. Nú fer þetta bara eftir því hvað ég nenni og má vera að. Ég hef svo mikið að gera sem betur fer.“
Hjalti segir þetta verk á Vöglum hafa verið löngu undirbúið og segir kankvís að best sé að taka það fram að ekki sé um framtíðarvinnu að ræða. Áfram ætlar hann að halda með Sögufélagið, sem gefur út Skagfirðingabók og Skagfirskar æviskrár, og eru einmitt á leiðinni.
„Svo er eitt og annað til sem ég gæti skrifað um ef maður kemur því í verk. Búinn að draga margt í sarpinn á þessum áratugum. Þó ég yrði 100 ára, og með fullu viti, þá hefði ég nóg að gera.“
Áður birst í 20. tbl. Feykis 2022
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.