Hægt að hefjast handa um byggingu menningarhúss á Sauðákróki
Á fundi byggðarráðs Svf. Skagafjarðar í gær var samningur við menningar- og viðskiptaráðuneytið um byggingu menningarhúss í Skagafirði lagður fram og samþykktur. Um er að ræða endurbætur á Safnahúsi Skagfirðinga og nýbyggingu við það og er ætlað að hýsa bókasafn, listasafn, skjalasafn auk rýmis fyrir varðveislu og sviðslistir.
Samningurinn er liður í samkomulagi frá árinu 2005 þar sem gert var ráð fyrir því að uppbygging menningarhúss í Skagafirði yrði tvíþætt, í fyrsta lagi endurbætur á félagsheimilinu Miðgarði, sem er lokið, og í öðru lagi viðbygging og endurbætur á Safnahúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki.
Nú er því hægt að að hefjast handa, eins og fram kemur í bókun Gísla Sigurðssonar og Stefáns Vagns Stefánssonar, formanni og varaformanni ráðsins, en áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdum ljúki árið 2025. Áætlaður framkvæmdakostnaður er 1.434 mkr. og nemur hlutur sveitarfélaganna 40%, eða 573,6 mkr. og ríkisins 60% eða 860,4 mkr. „Meirihluti byggðarráðs fagnar þeim áfanga að nú sé búið að samþykkja samning um menningarhús á Sauðárkróki. Umræddur samningur er búinn að vera lengi í burðarliðnum, drög að samningnum hafa legið fyrir frá því 2019 og hefði átt að vera tilbúinn fyrir löngu síðan. Þarfagreiningu er lokið og staðsetning við Safnahúsið á Sauðárkróki liggur fyrir samkvæmt samningnum,“ segir í bókuninni.
Álfhildur Leifsdóttir, áheyrnarfulltrúi VG og Óháðra, benti á að framkvæmdin væri kostnaðarsöm fyrir sveitarfélagið þrátt fyrir aðkomu ríkisins og og sagði stefnu VG og Óháðra að við stærri framkvæmdir eins og byggingu menningarhúss sé leitað eftir vilja íbúanna, bæði hvað varðar notkunargildi og staðsetningu. Lagði hún til að staðsetning og notkun á væntanlegu menningarhúsi yrði lögð fram til íbúakosninga og íbúar fái þannig hlutdeild í ákvarðanatökunni. Sú tillagan var felld með þremur atkvæðum.
Ólafur Bjarni Haraldsson, fulltrúi ByggðaListans í byggðaráði, sagði samninginn bera þess merki að hann sé lagður fram á síðasti fundi fyrir kosningar þar sem tíminn til að kynna sér innihald samningsins hafi verið skammur eða tæpur sólarhringur. „ … þegar um svo stórt og flókið mál er að ræða þá er eðlilegt að við gefum okkur þann tíma sem við teljum okkur þurfa. Við eigum að vanda okkur í okkar störfum, hvort sem það eru að koma kosningar eða ekki,“ segir í bókun Ólafs Bjarna en hann sat hjá við atkvæðagreiðslu um samninginn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.