Gersemar & Gamanmál :: Hugverk Hilmis flutt af fjölbreyttum hópi listamanna

Skopmynd af Hilmi Jóhannessyni, fjöllistamanni, sem hann hélt mikið upp á, teiknuð af Baldri Einarssyni frá Húsavík.
Skopmynd af Hilmi Jóhannessyni, fjöllistamanni, sem hann hélt mikið upp á, teiknuð af Baldri Einarssyni frá Húsavík.

Föstudaginn 29. apríl munu fjölmargir listamenn stíga á stokk í Háa salnum á Gránu á Sauðárkróki og flytja ýmis lög við texta Hilmis Jóhannessonar, ort við margs konar tækifæri. „Þetta verður fjöllistahópur einhvers konar en ég ætla líka að sýna myndir sem hann málaði og ég gerði lög við vísurnar sem hann teiknaði á myndirnar,“ segir Eiríkur sonur hans sem stendur að baki viðburðinum.

„Það sem ég er að hugsa um er að mig langar að heiðra textahöfunda sérstaklega sem að leggja ómælt til samfélagsins í formi gamanvísna fyrir þorrablót, árshátíðir og hinar ýmsu uppákomur og vel pabba minn í þetta skiptið af því að hann gerði svo mikið efni fyrir ýmis tækifæri,“ segir Eiríkur aðspurður um tilefnið. Hann segist langa til að benda fólki á hversu mikilvægir textar eru í öllum lagaflutningi og til þess notar hann texta pabba síns sem einmitt gerði mikið af textum fyrir alls kyns félagasamtök og hópa.

Hjónin Eiríkur Hilmisson og Bergrún Ingimarsdóttir.
Mynd af Facebook.

„Og mig langar bæði að benda fólki á hversu mikilvægur þáttur þetta er og um leið að þakka því fólki sem innir þetta óeigingjarna starf af hendi með því að setja upp dagskrá þar sem ég fer í gegnum þetta. Þegar ég fór að skoða kveðskap gamla mannsins, sem töluvert er til af, sá ég að mikið var af ljóðum sem eiga alveg jafn mikið erindi í sjálfu sér þannig að ég ákvað að skipta dagskránni í tvo hluta. Ég verð með vísur frá liðinni tíð þar sem textahöfundar sanna gildi sitt sem sagnfræðingar og skrásetjarar sögunnar og við rifjum upp nöfn á gömlum Sauðárkróksbúum, hús, staðhætti og ýmislegt og svo hins vegar það, sem kom mér svo mikið á óvart þegar ég fór að skoða þetta, hvað hann var hrifinn af Skagafirði því að mikið af þessum kveðskap er beintengdur í Skagafjörðinn,“ en til skýringar má nefna að Hilmir er fæddur og uppalinn Þingeyingur og hélt því ætíð á lofti þann tíma er hann bjó í Skagafirði.

Eiríkur segir að auk þekktra laga væri verið að flytja tíu frumsamin lög við útgefna texta gamla mannsins og fimm til sex sem hvergi hafa birst áður.

Beautiful Little Sunflower

Beautiful Little Sunflower eða BLS . Mynd af Facebook.

Með Eiríki verður að sjálfsögðu einvala lið úr hópi fjölskyldu og vina og sjálfur ætlar hann að syngja a.m.k. tvö lög ásamt því að spila á gítar. „Mér er rétt og skylt að telja þá bræður fyrsta upp, Jóhann og Margeir Friðrikssyni. Fyrir það fyrsta þá er þetta að stórum hluta byggt upp á hljómsveitinni Beautiful Little Sunflower eða BLS eins og við köllum okkur. Nafnið er þannig til komið að við vorum að spila á Ísafirði og einhver spurði mig hvað hljómsveitin héti. Þetta var á okkar einni óundirbúnu uppákomum, þar sem við ákváðum að vera eins og íslensku álfarnir og birtast bara hér og þar, og þá leit ég til baka og sá þá bræður horfa á móti sólinni og svaraði að þetta væri hljómsveitin Beautiful Little Sunflower. Nafnið er byggt upp á andlitum hljómsveitarmanna,“ segir Eiríkur og skellir upp úr og bætt við:. „Og ástæðan fyrir þessu nafni er sú að við ætlum að reyna að fá Sólblóma til að sponsora okkur. Þá sáum við að áhorfendur vissu ekkert hvað sólblóma var þannig að ég hef haldið mig við þetta nafn eða BLS.“

En nóg um þá nafngift því fleiri þarf að telja upp í hljómsveitinni sem stígur á stokk í Gránu.

„Já, svo er Stefán Gíslason frá Miðhúsum með okkur og ástæðan fyrir því að ég bað hann um að vera í hljómsveitinni er sú að ég geri mér vonir um að á einhverjum tímapunkti bjóði hann mér í Karlakórinn Heimi. Síðan er Sigurgeir Sigmundsson, stórgítarleikari, en hann leikur á pedal-steel-gítar og rafmagnsgítar, Matthías Stefánsson, sem er tökubarn inn í ættina mína verður á fiðlu, gítar, mandólín og banjó og svo fæ ég dætur mínar, Malen og Kristel til að syngja. En fyrsti söngvarinn sem ég setti á blað fyrir þennan viðburð er einn vanmetnasti en jafnframt besti söngvari sem ég hef unnið með, sem er Guðbrandur Jón Guðbrandsson, Gubbi.

Ég fékk pakkadíl hjá fjölskyldunni því Eysteinn sonur hans verður þarna líka og svo mun Arnar Freyr Frostason syngja rapplag, því Hilmir var náttúrulega svo víðáttulangt á undan sinni samtíð að hann gerði rapptexta árið 1985 eða sex en það stendur ekki rapp á blaðinu heldur talkór. Svo ætlar tengdadóttir mín, Ísabella Friðriksdóttir, að syngja og einnig Róbert bakari Óttarsson. Svo er aldrei að vita nema fleiri kíki í heimsókn.“

Eiríkur segir að boðið verði upp á margs konar list því hann ætli einnig að sýna myndir sem faðir hans málaði og gerði Eiríkur lög við vísurnar sem teiknaðar voru á myndirnar.

„Þetta verður pottþétt skemmtileg stund,“ segir Eiríkur sem ljómar af spenningi og eftirvæntingu. Hann segir ekki mikið vera eftir af miðum um kvöldið, meira laust um daginn og má nálgast miða á nafir@simnet.is eða í síma 861 5512. „Miðasala gengur vel og þessi atburður verður ekki endurtekinn,“ segir Eiríkur að lokum svo áhugasömum er bent á að tryggja sér miða í tíma.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir