Búin að gefa dætrum mínum saumavélarnar

Aðalheiður Dóra Sigurðardóttir er fædd og uppalin í Hafnarfirði (Gaflari). Hún á þrjú börn; stelpu fædda 1994,
strák fæddan 1995, stelpu sem er fædd 2004 og stjúpdóttur sem er 1983 árgangur og það eru komin þrjú barnabörn hjá henni.

„Við fluttum á Hvammstanga fyrir átta árum með níu ára dóttur, eldri börnin urðu eftir í bænum, voru komin í framhaldsskóla. Sjáum ekki eftir að hafa flutt hingað norður, Hvammstangi er gott samfélag og fólk hefur tekið okkur einstaklega vel. Ég var með eitt markmið þegar ég kæmi norður og það var að ganga í kvenfélagið svo ég hef verið í kvenfélaginu Björk á Hvammstanga. Það er líka góð leið til að kynnast þegar maður flytur á nýjan stað. Eftir ár hérna sá ég hótelið auglýst til sölu og bauð skipti á húsinu í Hafnarfirði. Þetta gekk allt upp svo ég er búin að reka það síðan. Núna er dóttirin komin í framhalds-nám á Selfossi og breyttar aðstæður svo mig langar orðið soldið til baka og hótelið komið á sölu eða jafnvel leigu,“ segir Aðalheiður Dóra.

Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir? Ég hef stundað hannyrðir með hléum síðan ég var krakki, systir mömmu kenndi mér að stoppa í sokka kringum 7 ára, svo voru auðvitað stelpur í handavinnu í skóla. Ég prjónaði fyrstu lopapeysuna í níunda bekk (núna 10. bekkur). Mamma var meiri saumakona svo hún kenndi mér að sauma en nú er ég búin að gefa dætrum mínum saumavélarnar.

Hvaða handavinna þykir þér skemmtilegust? Ég prjóna mest en finnst samt í raun skemmtilegast að hekla.

Hverju ertu að vinna að þessar mundir? Um þessar mundir er ég að prjóna peysu sem kallast Elfmail, er mest að gera peysur og sjöl, maður er alltaf að falla fyrir fallegu garni og eða uppskriftum.

Hvar fékkstu hugmyndina? Hugmyndina að Elfmail peysunni fékk ég frá vinkonu minni og uppskriftin er á Ravelry. Garnið frá Vatnsnes-garn (það er peysan sem er ekki kláruð, núna á ég bara eftir að fella af).

Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með? Er búin að gera margt fallegt um ævina en held ég sé ánægðust með gardínur sem ég saumaði og hannaði hér í denn.

Áður birst í tbl. 46 Feykis 2021.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir