Bjartir tímar framundan í Gránu
„Eftir magra tíð á tímum heimsfaraldurs er lífið í Gránu að færast í eðlilegra horf,“ segir Áskell Heiðar Ásgeirsson, yfirsturlungur í Gránu á Króknum, þegar Feykir spyr hann út í hvað sé framundan en Grána Bistro og sýningin 1238 – Baráttan um Ísland voru lokuð nú í byrjun árs en þá urðu breytingar í veitingarekstri og sömuleiðis herjaði Covid-veiran sem sjaldan fyrr á okkar svæði.
Áskell Heiðar segir að sýningin 1238 – Baráttan um Ísland hafi verið opin frá miðjum febrúar og þá hefur veitingastaður Gránu Bistro hafið starfsemi á opnunartíma sýningarinnar sem er frá 11-16, alla daga nema sunnudaga. „Matseðillinn er í þeim anda sem hann var þegar Grána Bistro opnaði fyrst árið 2019, áhersla lögð á einfaldan og hollan mat úr héraði. Vefjur, salöt og súpa, auk þess sem fleiri smáréttir eru að bætast við. Stefnt er að enn frekara samstarfi við framleiðendur matvæla í Skagafirði og nágrenni á komandi misserum.“
Þegar kemur lengra fram á vorið munu sunnudagar bætast við sem opnunardagar og þá verður opnunartíminn lengdur enn frekar í sumar. Upplýsingamiðstöð ferðamála, sem Sveitarfélagið Skagafjörður rekur í húsinu, verður opin á sama tíma, sem og minjagripabúðin í Gránu.
Sóli Hólm og Eiki Hilmis troða upp í apríl
„Bókanir frá ferðskrifstofum hafa verið að koma til baka á undanförnum vikum og ferðamönnum sem ferðast á eigin vegum hefur líka verið að fjölga. Fjöldi skólahópa mun koma í heimsókn í maí og nú í apríl verður rykið aðeins dustað af viðburðasalnum. Sóli Hólm kemur í heimsókn 13. apríl og 29. apríl stendur Eiríkur Hilmisson fyrir stórdagskrá sem er tileinkuð Hilmi föður hans,“ segir Áskell Heiðar. Ekki er útilokað að fleiri viðburðir verði settir á dagskrá á næstu vikum. „Starfsfólk 1238 sótti Mannamót, ferðakaupstefnu á Höfuðborgarsvæðinu á dögunum, og þar voru viðbrögðin góð og ekki annað að heyra en að hugur sé í ferðageiranum,“ segir hann.
Samhliða ferðaþjónusturekstrinum hefur fyrirtækið Sýndarveruleiki ehf., sem annast hann, verið að eflast á sviði tæknilausna og nýsköpunar sem tengist miðlun á menningararfinum í sýndarveruleika og viðbættum veruleika. „Nýr tæknistjóri, Þórður Grétar Árnason, var ráðinn í upphafi árs og samhliða voru ráðnir fjórir nýir starfsmenn í systurfélag Sýndarveruleika í Reykjavík sem vinna nú saman í teymi við að skapa nýjar lausnir sem stefnt er að því að prófa á sýningunni á Sauðárkróki og fara síðan með út á markað. Þá er stefnt að því að hafa nema í vinnu við sýningarþróun næsta sumar líkt og gert var síðastliðið sumar. Þessi nýsköpunarstarfsemi hefur fengið mikilvæga styrki frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra,“ segir Heiðar og bætir við: „Það eru því bjartir tímar fram undan í Gránu og 1238 og starfsfólk horfir bjartsýnt fram á við eftir erfið tvö ár í heimsfaraldri.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.