Barnvænn Skagafjörður
Eitt af grundvallaratriðum okkar í lífinu er að börnunum líði vel. Því er svo mikilvægt að hlúa vel að okkar yngsta fólki og skapa þeim umhverfi þar sem þau fá að njóta sín.
Barnvænt sveitarfélag
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði samning við UNICEF á Íslandi árið 2019 um þátttöku ríkisins í verkefninu Barnvæn sveitarfélög UNICEF undir formerkjunum Barnvænt Ísland. Markmiðið var að tryggja aðgengi allra sveitarfélaga að stuðningi við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Framsókn vill að barnið sé alltaf í forgangi.
Framsókn ætlar að vinna að því að Skagafjörður verði aðili að verkefninu Barnvænt sveitarfélag. Er það liður í því að gera enn betur í málefnum barna og leggja okkar af mörkum til að búa til betra samfélag. Verkefnið Barnvænt sveitarfélag styður sveitarfélög við innleiðingu á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla sína stjórnsýslu og starfsemi. Til að hljóta viðurkenningu UNICEF sem Barnvænt sveitarfélag þarf vinna að ýmsum úrbótum með réttindi barna að leiðarljósi. Sveitarfélag þarf að skuldbinda sig til að innleiða Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna og vinna markvist eftir hugmyndafræði verkefnisins sem byggja á grunnþáttunum:
Barnvænt sveitarfélag er ekki bara ein viðurkenning sem þarf að ná heldur þarf að viðhalda viðurkenningunni með því að halda innleiðingunni áfram og setja ný markmið. Fara þarf í gegnum það ferli á þriggja ára fresti sem gerir það að verkum að þetta starf þarf að vera stöðugt í gangi.
Þeim sveitarfélögum sem hafa farið á stað í þessa vegferð fer fjölgandi og viljum við í Framsókn að Skagfirðingar feti sömu braut. Í Skagafirði eru öflugir leikskólar og skólar þar sem við höfum af að státa mikilvægum hópi fagfólks sem er í tengslum við börnin okkar stóran hluta af þeirra uppvaxtarárum. Við höfum því mannauðinn til að innleiða verkefnið inn í starfið og þekkingin er til staðar. Þetta verður því tækifæri í að gera gott starf enn betra.
Börn eiga að njóta þeirra réttinda sem barnasáttmálinn kveður á um og skuldbinda þau sveitarfélög, sem innleiða verkefnið, sig til að standa vörð um þau réttindi með þessum alþjóðlega viðurkennda ramma. Réttur barnanna nær til alls nærsamfélagsins og á það við um heimili, skóla og þeirra staða sem barnið dvelur á.
Farsældarlögin
Ný löggjöf um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem tekið hefur gildi og hefur Framsókn sett sér að tryggja að öll börn njóti sömu réttinda í anda þeirra laga. Í stefnuskrá Framsóknar segir að „Eitt flóknasta viðfangsefni íslenskra stjórnvalda síðustu áratugi er sú staðreynd að börn hér á landi þurfa oft að bíða óhóflega lengi eftir greiningu eða þjónustu við mögulegum vanda. Oft er jafnvel um að ræða þekktan vanda sem þarfnast staðfestingar opinberra aðila til að geta hlotið nauðsynlega þjónustu.“ Þetta er eitthvað sem farsældarlögin taka á en markmiðið með þeim er að bæði börn og foreldrar hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi og umgjörðin sé á þann veg að sú þjónusta sé án hindrana. Mikilvægt er að hægt sé að bregðast við tilteknum aðstæðum eða erfileikum í lífi barns, með þeim stuðningi sem þarf, fyrr en verið hefur. Í þessu samhengi spilar verkefnið Barnvænt sveitarfélag stóran þátt en hluti af því er að sveitarfélög fá markvissa fræðslu og ráðgjöf í þeim málum sem viðkemur börnum.
Við í Framsókn viljum að öllum börnum líði vel í Skagafirði.
Hrund Pétursdóttir skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.