Saltfisklummurnar og Rauði kjúklingurinn
Guðrún Pálsdóttir og Ólaf Bernódusson á Skagaströnd voru matgæðingar vikunnar í 44. tbl. ársins 2012.
„Við hjónin erum frekar heimakær en þegar við erum ekki heima þá kunnum við best við okkur einhvers staðar á göngu í óbyggðum og höfum verið illa haldin af Hornstrandaveiki síðastliðin tólf ár. Það má segja að ég sjái að mestu leyti um eldamennskuna á heimilinu en Óli kemur oft með skemmtilegar hugmyndir um matargerð sem ég reyni svo að framfylgja með hans aðstoð, þannig að við erum yfirleitt ágæt þegar við leggjum saman,“ sagði Guðrún.
FORRÉTTUR
Saltfisklummur
115 g hveiti
½ tsk. lyftiduft
1 stk. egg
0,6 dl mjólk
115 g útvatnaður og beinhreinsaður saltfiskur
¼ stk. blaðlaukur
svartur pipar eftir smekk
Aðferð:
Þegar kom að því að velja forrétt, þá datt okkur nú fyrst í hug réttur sem sló í gegn þegar við héldum veislu fyrir göngufélaga okkar sem heimsóttu okkur til Skagastrandar fyrir nokkrum árum og kom sér þá vel að bóndinn veiðir allan fisk sem við notum á lítilli trillu sem hann á og hanterar hann á ýmsan hátt.
Hrærið saman hveiti, eggI og mjólk. Saxið saltfiskinn í litla bita og blandið saman við ásamt smátt brytjuðum blaðlauknum og kryddið með pipar. Steikt á pönnu í smá olíu eins og litlar lummur. Ýmis konar meðlæti má hafa með þessu, s.s. salat, grjón og jafnvel létta sósu.
AÐALRÉTTUR
Rauði kjúklingurinn
1 kg kjúklingabitar
3 dl matreiðslurjómi
Sósa:
u.þ.b.3 dl tómatsósa+ smá vatn
1-3 tsk. pipar
2-3 tsk. karrý
Aðferð:
Þegar á að fara að hugsa um aðalrétt, þá er einn réttur sem er búinn að loða við fjölskylduna í ansi mörg ár og gengur yfirleitt undir nafninu „Rauði kjúklingurinn“. Þegar fjölskyldan er að fara í sumarbústað, og verið er að huga að innkaupum, þá segja barnabörnin alltaf : Verður ekki örugglega rauður kjúklingur einhvern tíma í matinn?? Þessi réttur er alveg nauðaeinfaldur en góður og klikkar aldrei. Magnið af kryddinu fer bara eftir því hversu sterkan þið viljið hafa réttinn.
Kjúklingabitunum er raðað í djúpt eldfast form eða ofnskúffu og dálitlu salti stráð yfir og síðan er sósunni smurt ofan á. Sett í 180°C heitan ofn og bakað í hálfa klst. Þá er rjómanum hellt yfir og bakað áfram þar til kjúklingurinn er fulleldaður. Hrærið nokkrum sinnum vel í sósunni á eldunartímanum svo allt blandist vel saman. Borið fram með hrísgrjónum og fersku salati (og jafnvel brauði eða kartöflum) allt eftir smekk.
EFTIRRÉTTUR
Bláberja skyr-ostakaka
Botn:
100 g brætt smjör
200 g hafrakex
200 g LU candico kex (sporöskjulöguðu kökurnar)
Fylling:
250 g skyr
250 g rjómaostur
150 g sykur
2 egg
2 dl rjómi
8 blöð matarlím
500 g bláber
Aðferð:
Nú, þá er það eftirrétturinn, og þar sem Óli er haldinn veiðiáráttu, þá kemur það eðli líka fram í óstjórnlegri fíkn í að tína ber, sem er náttúrulega bara eins konar veiðiskapur, og þessum afurðum þarf að koma í lóg. Og til tilbreytingar frá bláberjasultu eða frosnum bláberjum þá er hér betrumbætt uppskrift af bláberjaköku sem ég fann einu sinni í blaði. Fínt að eiga nokkrar svona í kistunni á veturna.
Um er að ræða frekar stóra uppskrift. Myljið kexið saman við brætt smjörið. Þrýstið í botn á formi og kælið. Matarlímið lagt í bleyti. Rjóminn þeyttur og settur til hliðar. Hrærið saman skyr og rjómaost og bætið eggjum og sykri saman við og hrærið vel. Bætið síðan bláberjunum útí. Leysið matarlímið upp í smá vatni og blandið út í berjablönduna. Þeytta rjómanum er að síðustu hrært varlega saman við og öllu hellt yfir botninn í forminu. Látið stífna. Gott að borða kökuna með þeyttum rjóma.
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.