Vinavika í Grunnskólanum Hofsósi

Vikuna 4.-8. nóvember var skólastarf í Grunnskólanum austan Vatna á Hofsósi með nokkuð óhefðbundnum hætti en þá var efnt til vinaviku meðal nemenda og kennara.  Er þetta í sjötta skiptið sem sérstök vinavika er haldin við skólann. Var þá hefðbundið skólastarf  brotið upp að hluta til og lögð áhersla á vináttu og þýðingu hennar fyrir alla. Að efna til slíkrar viku er liður í stefnu skólans um vellíðan og virðingu í samskiptum allra sem þar nema og starfa.

Ýmislegt var gert til að efla tengslin, má þar nefna að farið var í tvíþættan leynivinaleik milli nemenda annars vegar og starfsfólks skólans hins vegar. Alla vikuna var spenna í loftinu, gjafir og bréf með fallegum orðum birtust á ýmsum stöðum.  Á föstudag var leyndinni aflétt og kom það mörgum á óvart hver leynivinurinn var. Sumir þóttust fullvissir hver vinurinn var en svo kom allt annað í ljós.

Fyrir nokkrum árum var málað vinatré á vegg á áberandi stað í skólanum og hefur það að geyma laufblöð og epli sem á eru skrifuð orð um vináttuna og seinna bættust við fuglamyndir sem segja frá hugmyndum nemenda og starfsfólks um það hvernig góður vinur eigi að vera.  Ennfremur má á veggjunum sjá blómagarð með ljóðum og sögum um vináttu og hendur sem segja til um hvernig góð samskipti lýsa sér.

Á göngum skólans má nú sjá hluta af afrakstri vikunnar þar sem þemað á þessu skólaári var „orðspor“. Krakkarnir gerðu orðu fyrir sig sem á stóð hvernig orðspor þau myndu vilja skilja eftir sig. Einnig gerðu þeir persónuleg boðskort, sem gengið var með í hús á staðnum, þar sem allir voru boðnir velkomnir í vinakaffi sem haldið var á föstudeginum.

Á föstudeginum, lokadegi vinavikunnar, var farið í vinagöngu um staðinn með vinaspjöld og sungin vinalög. Að henni lokinni var öllum boðið til vinakaffis þar sem nemendur hverrar bekkjardeildar bökuðu vöfflur í sinni stofu og krakkarnir í  9. bekk sáu um að allir fengju dýrindis kaffi. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til og ánægjulegt hve margir lögðu leið sína í skólann þennan morgun.

/Aðsent

.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir