Sungið og skálað á þorrablóti Dagvistar aldraðra

Árlegt þorrablót Dagvistar aldraðra á Sauðárkróki var haldið þann 21. febrúar sl. í húsakynnum Heilbrigðisstofnunarinnar. Þorrablótið var mjög vel sótt og matargestir hæstánægðir með þann úrvals mat sem þar var á boðstólnum.

Þorrablótið var haldið í samvinnu við Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki sem útvegaði matinn. Samkvæmt Kristrúnu Ragnarsdóttur forstöðumanns Dagvistar aldraðra var þorrablótið haldið um hádegisbilið en skjólstæðingar Dagvistarinnar eru þar að jafnaði frá kl. 9-15 á daginn.

„Það eru allir hæstánægðir. Hér hefur verið borðaður góður matur, hlustað á sögur, sungið og skálað í brennivíni,“ segir Kristrún en þá heyrist í einum úr salnum: „Of sjaldan skálað!“ – gestirnir hlægja.

Ingibjörgu Jóhannesdóttir frá Mið-Grund samdi þulu og fór með hana við tilefnið. Hún gaf Feyki góðfúslega leyfi til þess að birta Dagvistarþuluna.

Dagvistarþula

Fyrir óralöngu þegar ung við vorum
aldrei í leikskóla neinn við fórum
við fengum löngum að leika okkur heima
um leikskóla engan var farið að dreyma.

Fyrir börnin ungu sem bjuggu í sveit
þau brátt þurftu kýrnar að reka á beit
þau leggi og horn höfðu fyrir sitt bú
og hjörðinni sinni þau mjög voru trú.

Og fullkominn leikvöllur fjaran var þeim
sem fædd voru nálægt sjávarsins heim
í sandinn byggðu þau hús eða höll
já heilar borgir álfa og tröll.

Þau krotuðu í sandinn með kuðung og skel
það kom ekki að sök þó ei gert væri vel
því aldan var óðar komin á kreik
hún kunni að slétta þann barnanna leik.

Hve árin frá æsku til elli hratt fljúga
því oft reynist fólkinu erfitt að trúa
í dagvistar-leikskóla lent nú við erum
þar lífsins við njótum og ýmislegt gerum.

Svo Júlli á Rauð sínum rennir í hlað
hann raðar í bílinn og keyrir af stað
á Krókinn er haldið þó hvasst oft sé þar
þær koma og fagna okkur dagmömmurnar.

Í leiktækjasalnum við lærum sko margt
við lærum að ganga og víst er það þarft
og bolta við grípum og bolta við hendum
já bráðum í landsliðið kannski við lendum.

Svo hjólum við líka hratt bæði og lengi
en hættum því áður en fáum við strengi
en undrandi verðum að uppgötva það ?
að alltaf við erum á rétt sama stað.

Að fara í laugina líka er gaman
þar liðkum við skrokkinn að aftan og framan
æfingar strangar og erfiðar gerum
ótrúlegt það hversu fínar við erum.

Í föndrinu líka margt fallegt má gera
þar finnst líka konunum gaman að vera
sumir í Boccíu bregða sér fyrst
eða barasta spila sko gömlu vist.

Að syngja og kveða er sjálfsagt að gera
og sjálfglaðir ættu þá allir að vera
við notum þá rödd sem að Guð hefur gefið
og glaðbeitt, því tökum við síðasta stefið.

En svo þegar dagvistardeginum lýkur
þá drífum við okkur í skjólbetri flíkur
já kominn er Júlli við könnumst við það
hann koma mun okkur sko beint heim á hlað.

Já upphaf og endir er erfitt að skilja
en allt lýtur þetta víst skaparans vilja
svo lengi má teygja lífsins garn
að loks verður gamall maður barn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir