Söngur og salsadans á Valentínusardegi á Hólum

Í tilefni Valentínusardagsins sl. þriðjudag stóð Ferðaþjónustan á Hólum, í samstarfi við nemendur Ferðamáladeildar, fyrir Kærleiksrölti um Hólastað sem innihélt m.a. leiðsögn, kærleikskvöldverð og uppákomur fyrir alla fjölskylduna. Að sögn Hildar Þóru Magnúsdóttur rekstrarstjóra Ferðaþjónustunnar á Hólum gekk viðburðurinn frábærlega í alla staði. Mikill fjöldi fólks tók þátt í röltinu og voru rúmlega 50 manns sem gæddu sér á smáréttahlaðborði Byrðunar eftir röltið.

„Gengið var frá skólabyggingu í Hóladómkirkju þar sem sagt var skemmtilega frá kirkjunni og sögum henni tengdum. Því næst var gengið í Auðunarstofu þar sem nemendur Ferðamáladeildar fluttu leikþátt sem vakti mikla lukku áhorfenda,“ segir Hildur Þóra.

Þar næst segir hún að gengið hafi verið að gamla torfbænum, Nýjabæ en þar var tekinn fjöldasöngur við gítarspil sem nemendur Ferðamáladeildar stóðu einnig fyrir.

„Þegar á veitingastaðinn var komið var fólkið hitað vel upp með salsakennslu áður en smáréttunum var rennt ljúflega niður og að sjálfsögðu voru rauðar vöfflur á boðstólnum í tilefni dagsins,“ bætir Hildur Þóra við, en vonast er til þess að kærleiksröltið verði að árlegum viðburði á Hólum.

Hildur Þóra sendi Feyki nokkrar myndir frá deginum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir