Saga og kirkja samtvinnuð - myndir
Árleg Hólahátíð og Sögudagur á Sturlungaslóð voru haldin hátíðleg sl. helgi en að þessu sinni voru haldnir sameiginlegir dagskrárliðir, enda tengjast bæði viðfangsefnin órjúfanlegum böndum.
Á Hólahátíð gafst tækifæri til að taka þátt í helgihaldi, fræðsludagskrá og farið í gönguferðir og kynnst gömlum þjóðleiðum sem pílagrímar fóru á leið sinni heim að Hólum til taka þátt í helgihaldi. Hápunktur hátíðarinnar var svo biskupsvígsla frú Solveigar Láru Guðmundsdóttir.
Á laugardeginum sýndi Ragnheiður Þórsdóttir vefari, bæði í máli og verki, miðaldavefnað og hvernig ofið var röggvarfeld við kljásteinsvefstað á vefstól sem settur hefur verið upp í Auðunarstofu.
Björn Vigfússon sögukennari við MA var með fyrirlestur í Hóladómkirkju og Laufey Guðmundsdóttir söng. Sigríður Sigurðardóttir forstöðukona Byggðasafns Skagfirðinga kynnti skilti sem Sturlungahópurinn setti nýverið upp við Víðines í Hjaltadal. Á sama tíma léku börnin sér að miðaldarsið, með hornum, sverðum og skjöldum.
Kveðið stemmur í Kakalaskála
Um kvöldið var haldið Ásbirningablót í tilvonandi Kakalaskála í Kringlumýri í Blönduhlíð. Um er að ræða fyrsta viðburðinn sem haldinn er í húsakynnum skálans sem Sigurður Hansen hefur unnið að en hann hefur þegar gert umfangsmikið útilistaverk þar sem Haugsnesbardagi er sviðsettur á Haugsnesgrundum.
Kakalaskáli var fullsetinn og ríkti mikil gleði á meðal gesta í hinum nýja skála. Boðið var upp á girnilegan mat að miðaldarvísu, að hætti Hótel Varmahlíðar. Þar voru fjölmörg skemmtiatriði þar sem Kristín Halla Bergsdóttir mundaði fiðluna og hafði orð á einstökum hljómburði í salnum, Siggi á Ökrum og Jói í Stapa fóru með stemmur en Jói á jafnframt ófá handtökin í smíði Kakalaskálans. Sigurður Sigurðarson kvað stemmu eftir Jóa í Stapa sem var tileinkuð deginum.
Agnar Gunnarsson sá um veislustjórn eins og honum einum er lagið og stofnaði við tilefnið Kakalakórinn, sem samanstóð af viðstöddum Heimismönnum og tekið var „Undir bláhimni“ við tilefnið. Kartan Sigurjónsson organista skipaði Agnar sem stjórnanda Kakalakórisins.
Í meðfylgjandi myndasafni má skoða myndir frá deginum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.