Kántrýkonungurinn heiðraður

Merkisviðburður átti sér stað á Skagaströnd í gær þegar kántrýkonungur norðursins, Hallbjörn Hjartarson, fékk afhenta heiðursviðurkenningu af Luis Arreaga sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi fyrir einstakan dugnað hans og elju við að koma kántrýtónlist á framfæri á Íslandi og fyrir framlag hans til kántrýtónlistar.

Það var blíðskapar veður á Skagaströnd þegar viðburðurinn átti sér stað og húsfyllir í Kántrýbæ. Viðstaddir voru bersýnilega djúpt snortnir þegar Hallbjörn þakkaði fyrir viðurkenningar sínar, annars vegar frá sendiráði Bandaríkjanna á Íslandi og hins vegar frá Country Music Association í Bandaríkjunum.

„Ég er glaður í mínu hjarta yfir þessari viðurkenningu og mun ég geyma hana í hjarta mér og huga mínum allar stundir lífsins héðan í frá. Ég þakka fyrir mig með auðmjúku hjarta því að kántrýtónlistin á hug minn allan og hefur átt allt mitt líf,“ sagði Hallbjörn í þakkarræðu sinni og tók svo lagið við tilefnið, en það hefur hann ekki gert til fjölda ára. Honum var fagnað ákaft með lófaklappi og óhætt að segja að allir hafi notið sín vel, ekki síst konungurinn sjálfur.

Hallbjörn hefur sem kunnugt er helgað kántrýtónlistinni lífstarf sitt og gefið út fjölda hljómplatna með íslenskri kántrýtónlist en hans fyrsta kántrýplata kom út árið 1981. Hann hefur einnig um langt árabil átt og rekið útvarpsstöðina Útvarp Kántrýbæ sem hefur kynnt kántrýtónlist fyrir fjölmörgum Íslendingum.

Hér eru nokkrar myndir frá viðburðinum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir