Hliðskjálf við Réttarvatn endurgert
„Efst á Arnarvatnshæðum, oft hef ég klári beitt;“ orti Jónas Hallgrímsson forðum daga og botnaði: „þar er allt þakið í vötnum, þar heitir Réttarvatn eitt.“ Hollvinafélag Víðidalstunguheiðar stóð að endurbyggingu gangnakofa við téð Réttarvatn á Arnarvatnsheiði og bauð gestum að koma og líta á verkið í ágúst. Jafnframt var afhjúpað söguskilti sem félagið hefur sett upp við húsið sem ber nafnið Hliðskjálf en það mun einnig vera heitið á hásæti Óðins. „Og undir Norðurásnum, er ofurlítil tó, og lækur líður þar niður, um lágan Hvannamó,“ hélt Jónas áfram.
Um sjötíu manns komu ríðandi, gangandi eða akandi, að líta verkið augum og þáðu kaffi og úrvals bakkelsi. Anna Scheving á Hvammstanga var ein þeirra sem mættu á svæðið og var hún vopnuð myndavél og sendi Feyki myndir frá deginum. „Á öngum stað eg uni, eins vel og þessum mér; ískaldur Eiríksjökull, veit allt sem talað er hér,“ endar svo kvæði Jónasar um Arnarvatnsheiði.
.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.