Grillpartý og geggjuð tilboð þegar Skaffó skreið á fertugsaldurinn
Síðastliðinn föstudag var haldin afmælisveisla í Skagfirðingabúð í tilefni þess að á dögunum voru 30 ár frá opnun búðarinnar sem í daglega tali er kölluð Skaffó. Líkt og á opnunardaginn fyrir 30 árum kíkti fjöldi fólks í búðina í tilefni dagsins.
Það var heitt í kolunum við anddyri Skagfirðingabúðar og var gestum og gangandi boðið upp á grillaðar pylsur í brauði og annað grillkjöt og að sjálfsögðu voru fríir drykkir til að svala þorstanum í skagfirsku hitabylgjunni. Þá gaukuðu starfsmenn ís og nammi að gestum þannig að allir voru sáttir með sitt.
Inni í búðinni var líka nóg um að vera enda dúndrandi tilboð í gangi og margir komnir til að gera góð kaup.
Í Feyki miðvikudaginn 27. júlí 1983 segir frá því að kaupfélaginu hafi verið úthlutað lóð árið 1975 fyrir höfuðstöðvar sínar við Ártorg og ári seinna hófust byggingaframkvæmdir. Fjöldi fólks skoðaði og verslaði í Skaffó á opnunardaginn sumarið 1983 en í inngangi fréttar Feykis segir: -Nokkrir strákar voru mættir vel fyrir kl. níu þriðjudagsmorguninn 19. júlí fyrir framan rafdrifnar hurðir Skagfirðingabúðar, hins nýja vöruhúss Kaupfélags Skagfirðinga. Þrír fánar blöktu við hún, íslenski fáninn í miðju, en á hinum tveimur merki Sambands íslenskra samvinnufélaga og Kaupfélags Skagfirðinga. Nákvæmlega klukkan níu gengu Ólafur Friðriksson kaupfélagsstjóri og Magnús H. Sigurjónsson vöruhússtjóri að dyrunum. Magnús opnaði dyrnar með því að kveikja á rofa og Ólafur bauð strákana velkomna í Skagfirðingabúð.-
Í sama blaði er fyrsta auglýsingin frá búðinni en ýmis tilboð voru í gangi, enda verslunarmannahelgin framundan. Þá mátti fá sólstóla frá kr. 218, brasilískar appelsínur á 25 kr. kílóið, sportskó frá kr. 295 og gallabuxur frá kr. 260. En þetta var auðvitað á síðustu öld.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem ljósmyndari Feykis náði í veislunni á föstudaginn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.