Fríður barnahópur söng fyrir búðargesti

Nemendur á eldra stigi leikskólans Ársala tóku lagið í Skagfirðingabúð í tilefni degi leikskólans. Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur um allt land þann 6. febrúar en sama dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín.

Hópur búðargesta, foreldra og annarra aðstandenda barnanna horfðu á prúða barnahópinn syngja nokkur lög, m.a. skólasöng leikskólans sem Anna Jóna Guðmundsdóttir leikskólastjóri samdi í tilefni dagsins en hann má finna á heimasíðu Sveitarfélagsins. Að söngatriðinu loknu hélt hópurinn aftur útí góða veðrið og rölti yfir á Ársali.

Anna Jóna afhendi svo Ástu Björg Pálmadóttur sveitarstjóra Skagafjarðar veggspjald með nokkrum vel völdum gullmolum sem leikskólanemendur hafa látið frá sér.

Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla. Tilgangurinn er að auka jákvæða umræðu um leikskólann, vekja umræðu um hlutverk leikskóla og starf leikskólakennara og kynna starfsemina út á við.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir