Ein mínúta í viðbót og þá hefðu Keflvíkingar legið í valnum
Tindastólsmenn geta gengið fjallbrattir frá fyrsta úrslitaleik sínum í Powerade bikarkeppni KKÍ sem háður var síðastliðinn laugardag þrátt fyrir tap. Keflvíkingar náðu yfirhöndinni um miðjan fyrsta leikhluta og þrátt fyrir ágæta takta þá náðu Stólarnir aldrei almennilega í skottið á Suðurnesjapiltunum. Þeir voru þó allan tímann inni í leiknum og góður fjórði leikhluti dugði ekki til, munurinn varð minnstur 2 stig og það var eftir fáránleikakörfu Þrastar Leós á síðustu sekúndunni. Lokatölur 97-95 fyrir Keflavík.
Það vantaði ekkert upp á stuðninginn sem Stólarnir fengu í leiknum en mætustu menn halda því fram að yfir 1000 stuðningsmenn Tindastóls hafi verið á pöllunum – komust raunar naumlega inn þar sem skipulagið í miðasölunni var ekki alveg til fyrirmyndar, sumir stóðu í biðröð í 40 mínútur. Auddi kynnti leikmenn Tindastóls til sögunnar fyrir leik með miklum stæl og adrenalínið spýttist út í æðar Skagfirðinga sem tóku hraustlega undir með Blöndalnum.
Svo var flautað til leiks. Keflvíkingar gerðu fyrstu körfuna í leiknum en Rikki svaraði með þristi eins og hans er von og vísa. Suðurnesjamenn komust síðan í 8-3, Stólarnir náðu að jafna 11-11 en síðan dró í sundur með liðunum, Keflvíkingar komust í 29-15 en Svabbi lagaði stöðuna með 3ja stiga skoti. Staðan 29-18 að loknum fyrsta leikhluta.
Það þurfti ekki mann með gráðu í geimvísindum til að segja Tindastólsmönnum að það mátti ekki hleypa Keflvíkingum, með ofurskyttuna Magga Gunn í fararbroddi, langt fram úr. Það hefur hingað til ekki boðað gott. Það var því lykilatriði fyrir Stólana að halda í horfinu og helst minnka muninn og það gekk sæmilega fyrir sig. Tindastóll minnkaði muninn í upphafi annars leikhluta en Keflvíkingar héldu þetta 6-12 stiga forskoti. Miller gerði nokkur stig undir lok leikhlutans, en útlendingarnir í liði Tindastóls höfðu ekki verið að skila því sem vonir stóðu til í fyrri hálfleik. 52-41 í hálfleik og Stólunum hafði tekist að halda í við Keflvíkinga.
Svipað var upp á teningnum í þriðja leikhluta, það komu svona smá skagfirskar sveiflur í leik Tindastóls og munurinn yfirleitt 6-12 stig en Stólarnir náðu að laga stöðuna um eitt stig áður en leikhlutinn var úti. Staðan 76-66.
Stemningin á pöllunum hafði verið frábær allan leikinn enda stuðningsmenn Stólanna komnir til að skemmta sér og styðja sína menn þó svo mörgum hafi kannski þótt langsótt að vænta sigurs. En miðað við stuðið á Tindastólsmönnum á lokaköflum leikja í vetur þá eygðu nú ýmsir von og ekki var það til að minnka stemninguna í Laugardalshöllinni. Stólarnir komu hressir inn í fjórða leikhluta og minnkuðu muninn í 6 stig með tveimur körfum frá Svabba og Miller, Hreinsi varði síðan 3ja stiga skot frá Vali Valla Ingimundar en Svabbi klikkaði á 3ja stiga skoti sem hefði minnkað muninn í 3 stig og sprengt allt í loft upp. Valur svaraði fyrir sig með því að skila þremur stigum og munurinn 9 stig. Keflvíkingar gáfu ekkert eftir og voru 11 stigum yfir þegar 5 mínútur voru eftir og þeir voru 12 stigum yfir, 95-83 þegar 3 og hálf mínúta var eftir. Þá tróð Allen og átti síðan 3ja stiga körfu skömmu síðar og hann tróð aftur og minnkaði muninn í 5 stig þegar ein og hálf mínúta var eftir. Síðasta mínútan var æsispennandi en liðunum gekk illa að skora. Helgi Rafn braut ísinn þegar skammt var eftir, 95-92, og nú neyddust Stólarnir til að brjóta til að tíminn rinni ekki út. Maggi Gunn fór á línuna og skoraði úr báðum skotum sínum og tryggði Keflvíkingum bikarinn. Áður en tíminn rann út gerði Þröstur Leó þó körfu leiksins, skoraði með skoti frá eigin vítateig og yfir endilangan völlinn. Lokatölur 97-95.
Þrátt fyrir ósigur voru stuðningsmenn Tindastóls ánægðir og stoltir af sínum mönnum sem geta borið höfuðið hátt. Það verður að viðurkennast að Keflvíkingar voru betri aðilinn í leiknum, voru yfir nánast allan leikinn og Stólarnir alltaf að elta. Tindastólsmenn reyndu ansi mikið af 3ja stiga skotum í leiknum en settu niður 10 í 30 tilraunum. Keflvíkingar voru með 92% nýtingu í vítum en Stólarnir 68%. Stigahæstur í liði Tindastóls var Miller með 22 stig og hann hirti 8 fráköst og Svabbi, sem ætlar að mæta í Höllina að ári, gerði 14 stig og tók 9 fráköst. Annars stóðu menn almennt vel fyrir sínu í spennuleik, helst að Igor Tratnik væri ekki að finna sig. Í liði Keflvíkinga var Maggi að venju skeinuhættur og þó sérstaklega í fyrri hálfleik en besti maður vallarins var Charles Michael Parker sem gerði 32 stig og tók 13 fráköst.
Stig Tindastóls: Miller 22, Allen 18, Svabbi 14, Helgi Margeirs 10, Rikki 10, Þröstur Leó 9, Helgi Viggós 8 og Tratnik 4.
Palli Friðriks var á vappi með vélina í Laugardalshöllinni og tók nokkrar myndir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.