Vilhjálmur Kaldal með síðbúið sigurmark í enn einum sigri Stólanna
Tindastólsmenn léku á SS-vellinum á Hvolsvelli í gær þar sem þeir sóttu heim lið KFR. Rangæingar hafa heldur verið að rétta úr kútnum í síðustu leikjum eftir dapurt gengi framan af sumri. Þannig skelltu þeir liði Víðis í Garði 6-1 á dögunum en þeir höfðu ekki erindi sem erfiði gegn Stólunum þó gestirnir hafi þurft að hafa verulega fyrir 0-1 sigri sínum.
Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik en Stólarnir þó sterkari aðilinn. Snemma í síðari hálfleik skullu Bjarki Már og Ísak Sigurjónsson með höfuðin saman og varð að binda listrænt um höfuð þeirra beggja. Ísak gat ekki haldið áfram leik og Arnar Skúli tók stöðu hans. Á 65. mínútu átti Ingvi Hrannar laglega sendingu inn fyrir vörn KFR, Kenneth Hogg náði boltanum og lék á Gunnar Má Hallgrímsson markmann sem braut á Hogg. Hann tók vítaspyrnuna sjálfur en Gunnar Már, sem verður að teljast ljónheppinn að hafa aðeins fengið gula spjaldið fyrir brotið, varði glæsilega.
Eftir þetta jókst enn sóknarþungi Stólanna en það var ekki fyrr en á 85. mínútu sem Vilhjálmur Kaldal braut ísinn. Hann fékk boltann frá Hogg út í teig hægra megin við markið og náði hörkuskoti í fjærhornið. Gott mark sem tryggði Tindastólsmönnum tólfta sigur sinn í röð í 3. deildinni.
Með sigrinum vænkaðist enn hagur Tindastóls í deildinni því á sama tíma gerðu Einherji og Víðir jafntefli 1-1. Víðismenn eru með 31 stig að loknum 13 umferðum en Tindastóll trónir á toppnum með 36 stig. Lið Kára og Einherja eru bæði með 22 stig (Einherji á þó leik til góða) og vonir þeirra um að ógna toppliðunum því orðnar ansi litlar. Tindastóll og Víðir mætast á Króknum nk. laugardag kl. 14:00.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.