Viðar Sveinbjörnsson og Ragna Stefanía Pétursdóttir Skagfirðingamótsmeistarar

Sigurvegararnir. Um ættrakningu þeirra er það að segja að Ragna Stefanía Pétursdóttir er frá Hrauni í Sléttuhlíð og Viðar Sveinbjörnsson er sonur Báru Pétursdóttur, systur Gunna Pje og Hrafnhildar. Mynd: BJB.
Sigurvegararnir. Um ættrakningu þeirra er það að segja að Ragna Stefanía Pétursdóttir er frá Hrauni í Sléttuhlíð og Viðar Sveinbjörnsson er sonur Báru Pétursdóttur, systur Gunna Pje og Hrafnhildar. Mynd: BJB.

Skagfirðingamótið í golfi fór fram um síðustu helgi á golfvelli Borgnesinga en áður hafði mótinu verið frestað vegna veðurs. Á fésbókarsíðu mótsins segir Björn Jóhann Björnsson að stærsta fréttin sé sú að Haddi, „litli bróðir“ Arnar Sölva, fór holu í höggi hjá á 8. braut. En það eru þau Viðar Sveinbjörnsson og Ragna Stefanía Pétursdóttir sem bera titlana Skagfirðingamótsmeistarar 2017.

Þetta mun vera í annað sinn sem farin er hola í höggi á Skagfirðingamótinu en Arnar Magnús Róbertsson náði því árið 2008, á sama velli og reyndar sömu braut að sögn Björns Jóhanns, en hún hefur tekið breytingum síðan þá.

„Áður var ekki hægt að sjá flötina á 8. braut frá teignum og brautin var lengri. Núna er flötin sjáanleg og þeir spilafélagar Haddi, Guðjón Baldur, Raggi Magga Sverris og Steini Hauks horfðu á eftir boltanum niður. Ekki voru minni húrrahrópin á Hótel Hamri en þar sátu nokkrir gestir úti í góða veðrinu og urðu vitni að draumahögginu.

Gunni bakari og Sólrún hafa staðið vel við að halda Skagfirðingamótið í gegnum tíðina en nú hafa þau ákveðið að draga sig í hlé. Mynd: BJB.

 Að þessu sinni mættu um 70 kylfingar og léku í einu besta veðri sem Borgarnes hefur boðið upp á undanfarin tíu ár. Mótið átti að fara fram 26. ágúst sl. en var frestað vegna veðurs.

Sem fyrr voru vinningar glæsilegir en á sjötta tug styrktaraðila um land allt leggja sína lóð á vogarskálina til að gera þetta eitt stærsta átthagagolfmót landsins.

Þetta var 20. Skagfirðingamótið frá upphafi en á næsta ári verður 20 ára afmælinu fagnað. Fyrsta mót var á Nesvelli árið 1998, stjórnað af Steinari Skarp, Gunna bakara og Steina Hauks. Gunni tók svo við keflinu og hefur haldið því á lofti, ásamt Sólrúnu konu sinni. Nú hafa þau tekið þá ákvörðun að hætta í nefndinni og var þetta þeirra síðasta mót við stjórnvölinn,“ segir Björn Jóhann.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir