Úrslitakeppni Skólahreysti í gær
Úrslitakeppni Skólahreysti 2019 var háð í Laugardalshöll í gærkvöldi þar sem tólf skólar höfðu unnið sér keppnisrétt, efsti skólinn úr hverri undankeppni vetrarins auk þeirra tveggja skóla sem stóðu sig best þar fyrir utan. Tveir skólar á Norðurlandi vestra áttu lið í keppninni, Grunnskóli Húnaþings vestra og Varmahlíðarskóli.
Að vanda var keppt í fimm greinum; upphífingum, dýfum, armbeygjum, hreystigreip og í hraðaþraut. Leonie Sigurlaug Friðriksdóttir úr Grunnskóla Húnaþings vestra náði frábærum árangri og sigraði í báðum sínum greinum en hún tók 54 armbeygjur og í hreystigreipinni bar hún af öðrum keppendum en tími hennar var 6:28 sem þó er talsvert frá árangri hennar í undankeppninni þar sem hún náði að hanga í níu mínútur og 48 sekúndur. Steinar Óli Sigfússon í Varmahlíðarskóla náði einnig frábærum árangri í upphífingum þar sem hann varð í öðru sæti með 44 upphífingar.
Leikar fóru þannig að Lindaskóli vann með eins stigs mun, 56 stig, í öðru sæti varð Holtaskóli með 55 stig og Heiðarskóli var í þriðja sæti með 53 stig. Grunnskóli Húnaþings vestra hafnaði í fjórða sæti með 48 stig og Varmahlíðarskóli í áttunda sæti með 36,5 stig.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.