Þriðja svekkelsis tapið í röð hjá Stólunum

Pétur átti ágætan leik í gærkvöldi. MYND: HJALTI ÁRNA
Pétur átti ágætan leik í gærkvöldi. MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastólsmenn töpuðu þriðja leiknum í röð í Dominos-deildinni í gærkvöldi þegar þeir sóttu Hauka heim í Hafnarfjörðinn. Leikurinn var jafn og spennandi en varnarleikur liðanna var heldur öflugri en sóknarleikurinn. Það voru hinsvegar heimamenn sem reyndust kraftmeiri á lokamínútunum og sigruðu 79-76.

Menn bíða enn spenntir eftir að sjá hvað Tindastólsmenn hyggjast fyrir með Jerome Hill og nokkuð ljóst að kappinn er búinn að vera á síðasta séns all lengi. Hann byrjaði leikinn gegn Haukum vel, var með ellefu stig eftir fyrsta leikhluta, en endaði með 21 stig og fimm fráköst sem flest voru sóknarfráköst eftir að hans eigin skot voru að klikka. Hann virðist hreinlega engan veginn vera leikmaðurinn sem Stólana vantar þó tölurnar hans séu ekki alslæmar. Tindastóll leiddi 18-19 eftir fyrsta leikhluta og Stólarnir leiddu lengstum í öðrum leikhluta. Sóknarleikur beggja liða var þó frekar tilviljanakenndur en eftir að Haukar komust yfir, 34-33, setti Pétur (ekki Viðar) niður þrist og tvær silkimjúkar körfur fylgdu í kjölfarið frá Svabba. Staðan 34-40 fyrir Tindastól í hálfleik.

Líkt og í leiknum gegn Þór á dögunum komu Stólarnir illa fyrirkallaðir inn í seinni hálfleikinn og það voru heimamenn sem gerðu fyrstu átta stigin og komust yfir, 42-40. Lewis svaraði fyrir Tindastól en næstu mínútur voru heimamenn öflugri og Haukur Óskarsson kom þeim sjö stigum yfir með þristi, 56-49, þegar fjórar mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Þá hertu Stólarnir á vörninni og fóru hvað eftir annað á vítalínuna í sókninni. Þar voru strákarnir ekki að eiga góðan dag því í heildina klikkuðu þeir á ellefu vítum sem reyndist dýrkeypt þegar upp var staðið. Það dró saman með liðunum og Lewis setti niður annað víta sinna þegar hálf mínúta var eftir af þriðjungnum og minnkaði muninn í 59-58. Þristur frá Kristni Marinóssyni jók muninn í 62-58 áður en lokafjórðungurinn hófst.

Þristur frá Pétri og karfa frá Lewis komu Stólunum yfir, 64-65, og Pétur kom Stólunum aftur yfir 66-67, þegar fjórar og hálf mínúta var eftir. Þá varð sóknarleikur Tindastóls ráðleysislegur, menn reyndu að finna Lewis en Haukarnir lokuðu vel á hann. Hill vissi ekki hvort hann var að koma eða fara þegar hann var inná og heimamenn gengu á lagið og gerðu átta stig í röð. Staðan 76-68 þegar Helgi Margeirs setti niður skrautþrist og í kjölfarið stal Lewis boltanum á miðju og minnkaði muninn í 76-73. Spenna hljóp á ný í leikinn síðustu mínútuna en lukkan var ekki í liði Stólanna, sem kórónaðist í því að Pétur missti fótanna og boltann útaf þegar skammt var eftir. Hann setti þó niður þrist í  þann mund sem leiktíminn rann út en það dugði ekki til. En eitt svekkelsis tapið. Lokatölur 79-76.

Pétur átti ágætan leik í gær þó hann hafi verið óheppinn í lokin. Hann gerði 13 stig, tók sex fráköst og átti sjö stoðsendingar. Jerome Hill var stigahæstur með 21 stig og fimm fráköst, þar af fjögur sóknarfráköst. Lewis var með 19 stig og fimm stolna bolta auk fimm frákasta. Þá var Svabbi með ágæta innkomu og Helgi Viggós spilaði fína vörn á Mobley. Í liði Hauka voru Emil Barja og Kári Jónsson góðir.

Næsti leikur Tindastóls er hér heima fimmtudaginn 4. febrúar en þá koma Njarðvíkingar í heimsókn. Það er kristaltært að nú verða Stólarnir að girða sig í brók og fara að styrkja stöðu sína svo menn fari ekki að óttast verulega um sæti í úrslitakeppninni.

Stig Tindastóls: Hill 21, Lewis 19, Pétur 13, Svavar 7, Helgi Viggós 6, Flake 4, Helgi Margeirs 3 og Viðar 3.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir