Sviti, gleði og gnístran tanna á Molduxamóti

Með Margeir á hælunum.  MYNDIR: ÓAB
Með Margeir á hælunum. MYNDIR: ÓAB

Molduxamótið í körfubolta fór fram í íþróttahúsinu á Króknum í gær, laugardaginn 16. apríl, hvar spengilegir ungir piltar á ýmsum aldri og af ýmsu formi komu saman til að gera körfur. Alls mættu sex lið til leiks í 40+ flokki og níu í 30+ og þátttaka því bara nokkuð góð.

Eftir talsverð átök og stríðan straum svita og ýmissra smápústra varð ljóst að sigurvegarar í flokki 40+ urðu Staukar eftir harða baráttu við Dverga og Val/Fram, en þau urðu öll jöfn að stigum. Í flokki 30+ vann FSu frá Selfossi aftur á móti nokkuð öruggan sigur.

Þegar ljósmyndari Feykis var á vappi í Síkinu voru úrvalsmenn Molduxra sjálfra í liði 40+ ansi brattir þrátt fyrir að gestrisnin hafi kannski keyrt úr hófi fram þegar flautað var til leiks. Að móti loknu var heilmikil kvöldveisla til heiðurs þátttakendum í salarkynnum Drangey restaurant við rætur Sauðárgils.

Fram kemur á Facebook-síðu Molduxa að þeir þakka öllum liðunum þátttökuna og vonast eftir að sjá sem flesta að ári.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir