Svekkelsistap á teppinu
Tindastóll tók á móti Haukum í Inkasso-deild kvenna á gervigrasinu á Króknum í hörkuleik í gærkvöldi. Með sigri hefðu Stólastúlkur komið sér vel fyrir í toppbaráttu deildarinnar en niðurstaðan reyndist 0-1 tap og lið Tindastóls enn í þriðja sæti en miðjupakkinn í Inkasso er orðinn ansi þéttur. Leikurinn var jafn og jafntefli hefði sennilega verið sanngjörn úrslit en lukkan var ekki í liði Tindastóls í gær.
Stólastúlkur voru án fjögurra sterkra leikmanna. Krista Sól verður ekki meira með í sumar og þá hefur Hugrúnu Páls gengið illa að hrista af sér meiðsli. María Dögg var í banni eftir að hafa litið rauða spjaldið á Skaganum og Hrafnhildur var fjarri góðu gamni. Það var því talsverð blóðtaka á miðjunni hjá Stólunum en í stað Hrafnhildar og Maríu tefldu Jónsi og Guðni þeim Bergljótu Péturs og Ólínu Sif, sem skaust heim í frí frá USA, í þeirra stað.
Það varð fljótt ljóst að Haukar voru komnir á Krókinn til að berjast eins og ljón. Þær voru líka vel skipulagðar og náðu að koma í veg fyrir að Murielle léki lausum hala. Hún var nánast allan leikinn með tvær á bakinu og þá hjálpaði ekki til að leikmönnum Tindastóls gekk illa að finna hana í fæturna. Lið Hauka er vel skipað og það var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, náði á köflum upp ágætu spili á meðan alltof mikið stress var í Stólastúlkum sem negldu boltanum ítrekað fram völlinn í þeirri von að Vigdís og Mur hefðu betur en Haukastúlkar á sprettinum. Góð vörn gestanna gaf hins vegar fá færi á sér og það var því í raun sanngjarnt þegar Hafnfirðingar náðu forystunni, með frábæru skoti Töru Bjarkar Gunnarsdóttur á 42. mínútu. Hún fékk boltann á rétt framan við miðju og gat leikið boltanum að marki óáreitt og lét síðan vaða efst í fjærhornið af um 25 metra færi. Óverjandi fyrir Lauren í marki Tindastóls. 0-1 í hálfleik.
Jafnræði var með liðunum framan af síðari hálfleik. Vörn Tindastóls stóð sig með ágætum og fátt var um dauðafæri í leiknum. Þegar á leið þyngdist sókn Stólastúlkna og þær fóru að skapa sér færi. Kristrún var færð upp á hægri kantinn og fór að dæla sendingum inn í teiginn. Jackie óx ásmegin og lið Tindastóls fór loks að færa boltann upp völlinn í stað þess að kýla fram. Nú kom í ljós að markvörður Hauka, Chante Sandiford, er enginn aukvisi því hvað eftir annað kom hún sínu liði til bjargar með frábærum vörslum. Hún varði með tilþrifum ágætt skot Vigdísar Eddu þegar hún slapp ein inn í teiginn, sló nokkra strembna bolta yfir og varðist vel hornspyrnum og aukaspyrnum sem Stólastúlkur dældu inn í vítateig Hauka. Jackie átti frábæran skalla í stöng og út eftir fyrirgjöf Kristrúnar og nokkur hörkuskot smugu framhjá marki Hauka. Í raun var með ólíkindum að jöfnunarmarkið dúkkaði ekki upp en á endanum rann tíminn út og gestirnir fögnuðu innilega ásamt góðum hópi stuðningsmanna sem fylgdu liðinu norður.
Lið Tindastóls var óheppið að ná ekki einhverju út úr þessum leik. Færin komu þó nánast öll á síðustu 20 mínútum leiksins en Haukarnir vörðu mark sitt með kjafti og klóm. Sem fyrr segir var vörn Stólanna ágæt en of oft var gripið til þess ráðs að negla boltanum yfir miðjuna og fyrir vikið fékk miðjan úr litlu að moða. Ólína Sif og Guðrún Jenný var öflugar og Jackie kom sterk inn í leikinn á lokakaflanum. Vigdís Edda var dugleg og áræðin en að þessu sinni féll lítið með Murielle. Lið Hauka gaf Stólunum lítinn tíma á boltann og þær voru ansi öflugar í gærkvöldi en Sandiford í marki gestanna verður að teljast maður leiksins. Var hreint frábær.
Næstu tveir leikir Tindastóls eru gegn toppliðunum tveimur. Fyrst mæta þær FH í Hafnarfirði á þriðjudagskvöldið og síðan kemur lið Þróttar í heimsókn á Krókinn fimmtudaginn eftir verslunarmannahelgi. Það væri sætt að ná einhverju út úr þessum leikjum gegn sterkustu liðum deildarinnar. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.