Stólastúlkur stóðu í Njarðvíkingum
Tindastólsstúlkur spiluðu við lið Njarðvíkur í Ljónagryfjunni í VÍS bikarnum í gærdag. Þær grænu hafa verið eitt besta körfuboltalið landsins síðustu tímabil og urðu óvænt Íslandsmeistarar vorið 2022. Það var því við ramman reip að draga en Stólastúlkur stóðu í lappirnar og sýndu ágæta takta. Það dugði þó ekki til því heimastúlkur reyndust sterkari á svellinu og unnu að lokum öruggan sigur. Lokatölur 89-67 og lið Tindastóls úr leik í bikarnum,
Það hefur sennilega ekki farið framhjá mörgum hér fyrir norðan að lið Tindastóls hefur spilað vel í 1. deild kvenna og er þar í einu toppsætanna. Það var því spennandi fyrir liðið að máta sig við eitt sterkasta lið Subway-deildarinnar. Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta en að honum loknum leiddu gestirnir með einu stigi,18-19, eftir að hafa leitt mest allan tímann. Ekki voru heimastúlkur ánægðar með þetta og þær tóku völdin í öðrum leikhluta. Raunar var jafnt á flestum tölum fyrstu fjórar mínútur leikhlutans en Njarðvíkurliðið náði 13-0 kafla um miðjan leikhlutann sem reyndist mikilvægur og þær leiddu með tíu stigum í hálfleik. Staðan 45-35.
Tindastólsliðið lagði þó ekki árar í bát og þær bitu frá sér á ný í upphafi þriðja leikhluta og minnkuðu muninn í þrjú stig, 52-49, þegar rúmar fjórar mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Þá fylgdi hins vegar 11-0 kafli hjá liði Njarðvíkur og þær héldu uppteknum hætti í byrjun fjórða leikhluta og voru fljótt komnar með örugga forystu sem þær létu ekki af hendi.
Emese Vida var atkvæðamest í liði Tindastóls með 22 stig og tíu fráköst. Okoro var með 16 stig, Anika Linda gerði níu stig og tók sex fráköst og þá var Andriana Kasapi með átta stig.
Eva Rún ánægð með frammistöðu sinna stúlkna
Feykir hafði samband við Evu Rún Dagsdóttur, fyrirliða Stólastúlkna, og spurði hvort hún hafi verið ánægð með leik Tindastóls gegn liði Njarðvíkinga. „Já, mjög ánægð með leikinn. Við getum verið stoltar af okkar frammistöðu, við mættum og sýndum að við eigum alveg séns í þessi topplið. Við stóðum í þeim stærri hluta leiksins, en auðvitað leiðinlegt að ná ekki að klára það og komast áfram í bikar.“
Hvar lá munurinn á liðunum helst? „Mér fannst munurinn á liðunum ekki alltof mikill. En þær tóku alltof mörg sóknarfráköst og við brutum óþarfa oft á þeim. Einnig voru þær með töluvert betri þriggja stiga nýtingu og settu niður 14 þrista á meðan við settum niður þrjú. En annars fannst mér ekki endilega áberandi að annað liðið væri í Subway og hitt í 1. deildinni,“ sagði Eva Rún.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.