Stólarnir tryggðu sætið á KR-vellinum
Tindastóll sótti heim lið Knattspyrnufélags Vesturbæjar í dag og var leikið á KR-vellinum. Liðsmenn KV voru í næstneðsta sæti 2. deildar fyrir leikinn og þurfti nauðsynlega á sigri að halda til að laga stöðu sína í deildinni. Með sigri gátu Stólarnir aftur á móti tryggt veru sína í deildinni og sú varð raunin. Bjarki Már gerði sigurmarkið í uppbótartíma en lokatölur voru 1-2 fyrir Tindastól.
Þau óvæntu tíðindi urðu í liðsuppstillingu Tindastóls að Gísli Eyland hafði enn á ný tekið fram takkaskóna og stóð í markinu í stað Brenttons sem var meiddur í baki. Hann var fljótlega kominn í eldlínuna því á 8. mínútu fengu Vesturbæingarnir dæmda vítaspyrnu en Björn Þorláksson náði ekki að skora því Gísli varði með tilþrifum. Staðan hélst jöfn og markalaus fram að hléi en það var fyrirliði Stólanna, Konni, sem kom sínum mönnum yfir á 60. mínútu með snyrtilegu marki; smurði boltann uppí hornið með skoti utan teigs eftir góða sókn. Jón Konráð Guðbergsson jafnaði metin á 80. mínútu en það var síðan Hofsósingurinn eitilharði, Bjarki Már, sem gerði sigurmark Stólanna á 90. mínútu, með þrumuskalla eftir aukaspyrnu sem Konni tók við miðlínu, og tryggði þannig dýrmætan sigur.
Lið Tindastóls er nú á lygnum sjó um miðja deild með 28 stig líkt og Afturelding. Gengi liðsins hefur verið ansi gott í síðustu leikjum og ljóst að uppstokkunin sem varð skömmu áður en leikmannagluggi júlímánaðar lokaði gekk upp. Þá tók Stefán Arnar Ómarsson við liðinu og nokkrir nýir leikmenn komu til liðsins í stað þeirra sem yfirgáfu skútuna sem þá var í 10. sæti deildarinnar. Eftir tap í fyrstu tveimur leikjunum undir stjórn Stefáns hefur liðið náð upp góðri baráttu sem hefur skilað fjórum góðum sigrum og einu jafntefli.
Feykir náði í skottið á Stefáni Arnari þjálfara Tindastóls eftir leikinn og spurði hvernig leikurinn hefði verið. „Leikurinn var gríðarlega erfiður, einn erfiðasti sem við höfum spilað eftir að ég tók við. Við náðum aldrei almennilegum tökum á leiknum. Talsverður vindur var í Vesturbænum og spiluðum við gegn vindinum í fyrri hálfleik. Þeir stjórna leiknum og fá nokkur hálffæri. Við komum okkur líka í ágætis sénsa en náum ekki að reyna á markvörðinn. Í seinni hálfleik eru þeir áfram meira með boltann og komast í fín færi sem Gísli ver. Tekur 2-3 sinnum einn á einn.“ Eftir þetta segir Stefán að Stólarnir hafi farið að skapa sér betri færi og skora. Eftir að lið KV jafnaði leituðu Vesturbæingar að jöfnunarmarkinu en þá náðu Stólarnir að hegna þeim. „Frábær karaktersigur og extra sætt að ná sigurmarki á 90. mínútu. Það er æðislegt að vera búnir að tryggja veru okkar áfram í þessari deild og núna getum við hætt að líta aftur fyrir okkur og sjá hvort við náum að klifra eitthvað meira upp töfluna.“
Þá spurði Feykir Stefán hvers vegna Gísli hefði verið í markinu. „Brentton var meiddur í baki og Gísli var i Reykjavík með Jóni Gísla [syni sínum og liðsmanni Stólanna] sem var á landsliðsæfingu. Hann ferðast hvert sem hann fer með markmannshanskana svo hann var klár í rammann,“ sagði Stefán Arnar kátur og bætti við að Gísli hefði heilt yfir verið maður leiksins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.