Stólarnir skelltu í sparigírinn gegn Keflvíkingum
Síðasta umferðin í Dominos-deildinni var spiluð í gærkvöldi og í Síkinu mættust lið Tindastóls og Keflavíkur í leik sem talinn var vera baráttan um þriðja sætið í deildinni. Hefðu toppliðin tvö tapað sínum leikjum áttu Stólarnir reyndar möguleika á að verða deildarmeistarar en það var aldrei að fara að gerast. Það áttu því allir von á baráttuleik en Stólarnir komu alveg sjóðheitir til leiks og spiluðu hreint geggjaða vörn gegn ráðvilltum Keflvíkingum sem voru mest 38 stigum undir í leiknum. Lokatölur 89-68 og þriðja sætið því okkar!
Það var eins og Israel Martin og lið Tindastóls hefðu verið búnir að kortleggja lið gestanna frá a til ö því öllum leiðum Keflvíkinga að körfu Stólanna var skellt í lás. Á sama tíma leystu heimamenn vel úr sóknarleik sínum og Alawoya gerði vel undir körfu Keflvíkinga. Hinum megin voru Keflvíkingar þvingaðir í vond skot, hvað eftir annað stálust Stólarnir inn í sendingar gestanna og Viðar sá til þess að Hörður Axel var í tómu veseni. Sverrir Þór, þjálfari Keflavíkur, tók leikhlé í stöðunni 10-2 eftir þrjár og hálfa mínútu og aftur tæpum þremur mínútum síðar þegar staðan var orðin 19-4. Þá sagði hann sínum mönnum að ef þeir ætluðu að halda áfram að spila líkt og þeir höfðu gert þá yrði 50 stiga munur í leikslok!
Leikur gestanna skánaði ekki mikið eftir þessi skilaboð en Hössi setti þó niður tvo þrista á skömmum tíma og staðan var 24-12 að loknum fyrsta leikhluta. Keflvíkingar héldu áfram að gera sig seka um slæmar ákvarðanir og sérstaklega átti Michael Craion erfitt uppdráttar og tapaði ótal boltum einkar klaufalega. Friðrik Stefáns gerði fimm fyrstu stig Tindastóls í öðrum leikhluta og þá var ljóst að það var sama hver kom á parkettið fyrir Stólana, það voru allir í spólandi stuði; helgrimmir í vörninni og áræðnir í sókninni. Þegar 15 mínútur voru liðnar af leiknum var staðan orðin 39-18 og stuðningsmenn Stólanna réðu sér vart fyrir kæti og feginleika að sjá liðið sitt loksins í stuði eftir talsverða eyðimerkurgöngu seinni part deildarkeppninnar. Í hálfleik var staðan 53-29.
Einhverjum hefur kannski orðið hugsað til KR leiksins hér í Síkinu nú í janúar þar sem staðan var svipuð í hálfleik en svo hrundi leikur Tindastóls í síðari hálfleik. KR-ingar voru reyndar með stuðkarl í sínu liði en Keflvíkingar höfðu ekkert slíkt ofurvopn. Eftir vandræðalegan sóknarleik beggja liða í upphafi þriðja leikhluta skellti Alawoy í eina íleggju og eftir tapaðan bolta hjá Craion bætti Brilli við þristi og munurinn orðinn 29 stig, 58-29. Næstu mínútur var jafnræði með liðunum en eftir netta troðslu frá Gunnari Ólafssyni þá sagði Pétur hingað og ekki lengra. Hann setti þrist í andlitið á Gunnari, stal síðan boltanum og lagði í körfu gestanna og um leið var dæmd óíþróttamannsleg villa á Gunnar og vítið setti Pétur að sjálfsögðu niður. Leikhlutinn kláraðist síðan þannig að Axel Kára setti niður tvo þrista og munurinn 38 stig. Staðan 77-39.
Fjórði leikhluti var því bara formsatriði og á meðan Keflvíkingar keyrðu meira og minna á sínu besta liði þá fengu allir í Tindastólsliðinu að spreyta sig. Keflvíkingar fengu nokkrar ódýrar körfur til að fegra stöðuna og unnu fjórða leikhlutann 12-29 en máttu engu að síður sætta sig við 21 stigs tap. Hörður Axel og Craion löguðu tölfræðina sína á þessum kafla sem var hreinlega kjánaleg fram að fjórða leikhluta.
Ríflega 500 áhorfendur sóttu Síkið heim í gær og skemmtu sér vel yfir góðum leik Tindastóls og rífandi stemning frá fyrstu mínútu. Þrátt fyrir að spila vel voru Stólarnir ekki að hitta neitt sjúklega vel, liðið var með 31% nýtingu (11/35) í 3ja stiga skotum. Það sem gerði gæfumuninn var frábær vörn sem skilaði auðveldum körfum þegar gestirnir glötuðu boltanum. Keflvíkingar tóku þannig aðeins 51 skot í opnum leik á móti 81 skoti Stólanna. Á móti kom að Keflvíkingar fengu 33 vítaskot en Stólarnir sjö. Breiddin í liði gestanna var átakanlega lítil en þrátt fyrir að byrjunarliðið ætti skelfilegan leik þá voru fjórir byrjunarliðsmenn að spila meira en 35 mínútur í leiknum en á sama tíma spiluðu aðeins þrír leikmenn Tindastóls í meira en 25 mínútur. Átta leikmenn gestanna komu við sögu í leiknum en Israel Martin notaði alla tólf í sínu liði.
Lið Tindastóls átti frábæran leik og gott fyrir menn að ljúka deildarkeppninni með sannfærandi frammistöðu og að tryggja þriðja sætið. Þrátt fyrir allt vesenið eftir jól þá endaði liðið aðeins einum sigri frá efsta sæti. Alawoya átti fínan leik í gærkvöldi og skilaði 20 stigum og ellefu fráköstum. Pétur átti frábæran leik, gerði 18 stig og stjórnaði leiknum vel. Danero var með 13, Brynjar Þór 11 og Friðrik Stefáns, sem spilaði eins og höfðingi, gerði 10 stig. Þær voru margar hetjurnar í liði Tindastóls sem voru ekki áberandi í stigaskorinu. Bæði Axel og Helgi Rafn skiluðu sínu með sóma en óhætt er að fullyrða að engum hafi verið fagnað jafn vel af stuðningsmönnum Stólanna og Viðari þegar hann hvarf af velli með fimm villur eftir að hafa verið með Hörð Axel í skrúfstykki fyrstu þrjá leikhlutana.
Nú er ljóst að andstæðingar Tindastóls í úrslitakeppninni er lið Þórs frá Þorlákshöfn og hefst úrslitakeppnin 21. mars. Þórsarar hafa spilað vel frá áramótum og verður vafalaust um hörku leiki að ræða hjá liðunum. Þá er rétt að óska liði Stjörnunnar til hamingju með að hafa unnið Dominos-deildina en liðið lauk keppni með 34 stig, líkt og Njarðvík en hafði naumlega betur í innbyrðis viðureignum liðanna. Keflavík endaði í fjórða sæti og KR í því fimmta, Þór í sjötta, ÍR í sjöunda og Grindavík í áttunda og síðasta sætinu sem skilar sæti í úrslitakeppninni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.